Sakar Kínverja um afskipti af kosningum

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada hefur sakað Kínverja um tilraunir til þess að hafa afskipti af kosningum í Kanada. 

BBC greinir frá.

Trudeau sakaði stjórnvöld í Peking um „árásagjarna tilburði“ gagnvart lýðræðinu og að gera kanadískar stofnanir að skotmörkum sínum. 

Kanadískir fjölmiðlar hafa að undanförnu greint frá því að þarlend leyniþjónusta hafi borið kennsl á net frambjóðenda sem njóta stuðnings kínverskra stjórnvalda. 

Ellefu frambjóðendur hið minnsta nutu stuðnings Kínverja í þingkosningunum árið 2019 í Kanada samkvæmt rannsókn leyniþjónustunnar að sögn Trudeaus. 

Kanadískir miðlar hafa, með vísan í ónefnda leyniþjónustustarfsmenn, greint frá því að kínversk stjórnvöld hafi greitt háar fjárhæðir til frambjóðenda sem einnig höfðu kínverska ráðgjafa í starfsliði sínu. 

Í einu tilviki er til að mynda um að ræða greiðslu upp á 250 þúsund kanadadali til framboðsskrifstofu þingmanns í Ontario. Það jafngildir um 27 milljónum króna. 

Þá er fullyrt að aðgerðum kínverskra stjórnvalda hafi verið stýrt frá ræðisskrifstofunni í Torontó, þar sem einnig hafi verið lögð áhersla á að koma starfsfólki fyrir í starfsliði þingmanna til að hafa áhrif á stefnumótun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert