Gífurlega mjótt er á mununum í Georgíuríki þar sem búist er við að öldungadeildarþingmaður demókrata, Raphael Warnock og áskorandinn repúblikaninn Herschel Walker muni fara í endurkosningu 6. desember næstkomandi, nema eitthvað mikið breytist á næstu klukkustundum.
Hvorugur hefur náð 50% atkvæða, en í Georgíuríki er það sett sem skilyrði fyrir að vinna öldungardeildarsætið.
Athygli vekur að kapphlaupið um ríkisstjórasætið var alls ekki tæpt þar sem repúblikaninn og sitjandi ríkisstjóri Brian Kemp sigraði demókratann Stacey Abrams mjög sannfærandi.
Yfirleitt er ákveðin fylgni milli kosninga ríkisstjóra og í sæti öldungadeildarþingmanns, því fólk kýs jú iðulega samkvæmt sínum flokki. Hins vegar er það ekki raunin núna, og það gæti verið að neikvæð umfjöllun um fóstureyðingar í tengslum við Walker hafi haft áhrif á kosninguna.
Hann fékk þó stuðning fyrrverandi forsetans Donald Trump, en það virðist ekki vera að skila sér í þessum kosningum.
Staðan er nánast hnífjöfn milli Warnock og Walker, en þó hefur Warnock örlítið forskot en hvorugur virðist vera að ná yfir 50% múrinn.
Það virðist vera mál manna vestanhafs að úrslitin í Georgíuríki gætu skipt sköpum um hvort demókratar haldi meirahluta í öldungadeildinni eða hvort meirihlutinn fari til repúblikana.
Uppfært: Tilkynnt hefur verið að endurkjör verður í Georgíuríki.