J.D. Vance, frambjóðandi repúblikana til öldungadeildarsætis fyrir Ohio-ríki, hefur borið sigur úr býtum í baráttunni við demókratann og fulltrúadeildarþingmanninn Tim Ryan.
Þetta fullyrða fréttastofur ABC og NBC og byggja á töldum atkvæðum.
Ríkið var áður talið fela í sér besta möguleika demókrata á að næla sér í annað öldungadeildarsæti, en þar hefur setið repúblikani sem nú er á leið á eftirlaun.
Kosið er í 35 sæti öldungadeildarinnar fyrir jafnmörg ríki að þessu sinni. Í átta ríkjum af þessum 35 sýndu kannanir fyrir kosningarnar að of mjótt væri á munum til að spá mætti örugglega um úrslitin.
Ohio er eitt þessara átta ríkja, sem nú hafa fallið repúblikönum í skaut.
Fyrir kosningarnar höfðu repúblikanar 50 þingmenn í deildinni og demókratar 48, auk tveggja óháðra þingmanna sem fylkja sér með flokknum. Staðan var því 50-50 fyrir kosningarnar, en Kamala Harris varaforseti hefur farið með oddaatkvæðið þegar atkvæði standa jöfn.
Ryan hefur verið þingmaður ríkisins í fulltrúadeildinni undanfarna tvo áratugi.
Vance varð fyrst þekktur vestanhafs fyrir bók sína Hillbilly Elegy sem kom út árið 2016. Hún vakti mikla athygli og þótti skýra þann mikla stuðning sem Donald Trump fékk frá hvítum kjósendum úr verkamannastétt.
Vance er dyggur stuðningsmaður Trumps og forsetinn fyrrverandi hefur endurgoldið honum greiðann með stuðningsyfirlýsingum.
Efnahagsmálin brenna mest á kjósendum í Ohio, eins og þau gera þegar litið er yfir öll Bandaríkin. Verðbólga og framfærslukostnaður vega þyngst, en þar á eftir fylgir réttur til þungunarrofs.