Repúblikanar sigra í lykilríkinu Ohio

J.D. Vance og Donald Trump á fjöldasamkomu á mánudag.
J.D. Vance og Donald Trump á fjöldasamkomu á mánudag. AFP

J.D. Vance, frambjóðandi repúblikana til öldungadeildarsætis fyrir Ohio-ríki, hefur borið sigur úr býtum í baráttunni við demókratann og fulltrúadeildarþingmanninn Tim Ryan.

Þetta fullyrða fréttastofur ABC og NBC og byggja á töldum atkvæðum.

Ríkið var áður talið fela í sér besta mögu­leika demó­krata á að næla sér í annað öldungadeildar­sæti, en þar hefur setið repúblikani sem nú er á leið á eftirlaun.

Eitt af átta barátturíkjum

Kosið er í 35 sæti öld­unga­deild­ar­inn­ar fyrir jafnmörg ríki að þessu sinni. Í átta ríkjum af þessum 35 sýndu kannanir fyrir kosningarnar að of mjótt væri á munum til að spá mætti örugglega um úrslitin.

Ohio er eitt þessara átta ríkja, sem nú hafa fallið repúblikönum í skaut.

Fyr­ir kosn­ing­arn­ar höfðu re­públi­kan­ar 50 þing­menn í deildinni og demó­krat­ar 48, auk tveggja óháðra þing­manna sem fylkja sér með flokkn­um. Staðan var því 50-50 fyrir kosningarnar, en Kamala Harris vara­for­seti hefur farið með odda­at­kvæðið þegar at­kvæði standa jöfn.

Dyggur stuðningsmaður Trumps

Ryan hef­ur verið þingmaður rík­is­ins í full­trúa­deild­inni und­an­farna tvo ára­tugi.

Vance varð fyrst þekkt­ur vest­an­hafs fyr­ir bók sína Hill­billy El­egy sem kom út árið 2016. Hún vakti mikla at­hygli og þótti skýra þann mikla stuðning sem Don­ald Trump fékk frá hvít­um kjós­end­um úr verka­manna­stétt.

Vance er dygg­ur stuðnings­maður Trumps og for­set­inn fyrr­ver­andi hef­ur end­ur­goldið hon­um greiðann með stuðningsyfirlýsingum.

Efna­hags­mál­in brenna mest á kjós­end­um í Ohio, eins og þau gera þegar litið er yfir öll Banda­rík­in. Verðbólga og fram­færslu­kostnaður vega þyngst, en þar á eft­ir fylg­ir rétt­ur til þung­un­ar­rofs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka