Sarah Huckabee Sanders, fyrrverandi talsmaður Hvíta hússins undir stjórn Donalds Trumps, hefur verið kjörin ríkisstjóri Arkansas. Helstu fréttastofur vestanhafs fullyrða þetta og byggja á kosningaspám sínum og töldum atkvæðum.
Sanders kemur úr röðum repúblikana rétt eins og faðir hennar, Mike Huckabee, sem einnig stýrði ríkinu frá árinu 1996 og til ársins 2007.
Í kosningabaráttu sinni gagnrýndi hún Joe Biden forseta harðlega og sagði hann róttækan. Efst á baugi í baráttunni voru málefni á borð við verðbólgu, málefni innflytjenda og glæpi.
Sanders, sem er 40 ára, var ítrekað gagnrýnd í starfi sínu sem talsmaður fyrir að ljúga þegar blaðamenn spurðu hana spurninga.
Sem þriggja barna móðir vísaði hún ítrekað til fjölskyldu sinnar og trúar þegar hún gegndi starfinu. Er hún lét af störfum árið 2019 lofaði Trump hana sem „stríðsmann“ og sagði síðar að hún yrði „frábær“ sem ríkisstjóri Arkansas.