Segir engan fót fyrir orðrómi um svindl

Bill Gates, yfirmaur kjörstjórnar í Maricopa-sýslu talar í dag um …
Bill Gates, yfirmaur kjörstjórnar í Maricopa-sýslu talar í dag um bilanir í nokkrum kosningavélum í ríkinu í gær. AFP/Olivier Touron

Yfirvöld í Arizona hafa lýst því yfir að ekkert saknæmt hafi átt sér stað vegna staðbundinna vandamála með lítinn hluta kosningavéla í Maricopa-sýslu í gær. Orðrómur fór á kreik á samfélagsmiðlum strax á kosningadaginn í gær um að kosningasvindl væri í uppsiglingu, og þegar fyrrverandi forsetinn, Donald Trump, tók undir orðróminn fór sagan á flug.

„Það er ekki nokkur fótur fyrir þessum ásökunum,“ sagði Bill Gates, formaður yfirkjörstjórnar Maricopa-sýslu, en hann er ekkert skyldur nafna sínum, stofnanda Microsoft. Mikið var fylgst með sýslunni vegna ásakana í forsetakosningunum 2020 þar sem flökkusaga fór á kreik um að atkvæði hefðu verið látin hverfa, sem hefði kostað sitjandi forseta, Trump, sigurinn.

Stuðningsmenn Trumps, þar með talin áskorandinn í baráttunni um ríkisstjóra, Kari Lake, halda því fram að tíu þúsund atkvæða munur Joe Biden í ríkinu hlyti að vera vegna glæpsamlegs athæfis. Málið hefur verið rannsakað í þaula og ekkert komið fram sem styður þessar ásakanir.

Langar biðraðir í Phoenix

Vandræði voru með 60 kosningavélar af 223 í gær sem lýstu sér þannig að vélarnar áttu í erfiðleikum með að lesa eða prenta út kjörseðla í sumum tilvikum. Gates bað aftur afsökunar á töfunum sem þessi bilun olli, en langar biðraðir mynduðust í Phoenix og úthverfunum vegna þessa, en Gates sagði að bilunin hefði ekki komið niður á þátttöku og allir sem hefðu mætt gátu kosið.

Þeir 17 þúsund kjósendur sem lentu í vandræðum með vélarnar gátu sett atkvæði sín í læsta kassa sem var síðan talið upp úr á kjörstað þar sem vélarnar voru í lagi. Gates bað fólk um að vera þolinmótt, þrátt fyrir að enn ætti eftir að telja 400 þúsund atkvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert