Stærsti sigurinn er hjá DeSantis í Flórída

Ron DeSantis vann stórsigur í Flórída og var með næstum …
Ron DeSantis vann stórsigur í Flórída og var með næstum 20% forskot á áskorandann Charlie Crist, sem var repúblikani en fór yfir í demókrataflokkinn í lok ársins 2012. AFP/Giorgio Viera

Á meðan árangur repúblikana á landsvísu hefur ekki verið í samræmi við væntingar í miðkjörtímabilskosningunum í Bandaríkjunum stendur Flórídaríki uppi sem ríkið þar sem repúblikanar vinna sinn stærsta sigur. Ríkið hefur verið að færast meira yfir til repúblikana síðustu ár, en hefur þó oft verið talið til svokallaðra sveifluríkja, sem fara stundum til demókrata og stundum til repúblikana.

Rústaði áskorandanum með 60% fylgi

Ríkisstjórinn Ron DeSantis vann stórsigur gegn áskorandanum Charlie Cris með nærri 20% mun á atkvæðum. Cris var áður í Repúblikanaflokknum en fór yfir til Demókrata 2012 þegar gengi hans fór dalandi í flokknum.

En hvað þýðir þessi stórsigur fyrir DeSantis? Það hefur mikið verið rætt um hann sem næstu vonarstjörnu repúblikana og hugsanlegt forsetaefni, þó hann hafi ekki enn tilkynnt um framboð fyrir 2024.

Þessi sigur mun styðja þær hugmyndir allverulega. Nú hefur fyrrverandi forseti, Donald Trump, ekki enn lýst því yfir að hann muni fara í framboð 2024, en flestir fjölmiðlar vestanhafs spá því að það muni gerast næstu daga. Eða gerðu það fyrir miðkjörtímabilskosningarnar.

Slælegt gengi margra frambjóðenda sem Trump hafði stutt gæti breytt ýmsu og Joe Walsh, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður repúblikana, sagði í samtali við BBC að hann teldi að flokkurinn myndi kenna Trump um að ekki varð stórsigur hvert sem litið var í kosningunum í gær, þó sú gagnrýni yrði ekki með beinum hætti.

Kellyanne Conway, fyrrverandi ráðgjafi og náinn samstarfsmaður Trumps var í viðtali á Fox News í dag og hún kvaðst ráðleggja sínum gamla félaga að bíða með allar yfirlýsingar þar til úrslit þessara kosninga eru ljós. Nýjustu fréttir herma að það muni ekki verða fyrr en í desember vegna endurkjörs í Georgíuríki. Þá er spurning hvort Trump muni bíða svo lengi og hann er þegar byrjaður að tala niður til DeSantis sem hann segir heilagleikann uppmálaðan eða Ron „DeSanctimonious.“

Sitja uppi með Biden... og tapa

Kellyanne hrósaði DeSantis í viðtalinu hjá Fox News og sagði sterka sveiflu til hægri í ríkinu sem hún sagði vera vendipunkt og eitthvað sem myndi halda áfram. Hún sagði einnig að vegna betra gengis demókrata í kosningunum í gær myndu þeir sitja uppi með Biden sem frambjóðanda næsta kjörtímabil í kosningunum 2024. „Og hann mun tapa,“ sagði hún.

„Við höfum svo margt að gera og baráttan er bara rétt að byrja,“ sagði DeSantis í sigurræðu sinni og í dag var hann á leið til Tallahassee til að undirbúa aðgerðir í ríkinu vegna fellibylsins Nicole sem búist er við að nái landi á austurströnd ríkisins seint í kvöld eða nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert