Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er sagður vera „æfur og öskra á alla“ eftir gengi Repúblikanaflokksins í þingkosningunum vestanhafs í gær.
Þetta hefur CNN eftir ráðgjafa Trumps sem gagnrýnir Trump fyrir hvaða frambjóðendur flokksins hann studdi í lykilríkjum.
Ráðgjafinn telur ólíklegt að Trump muni fresta því að tilkynna forsetaframboð sitt þar sem það væri „of niðurlægjandi til að tefja það“. Hann bætti þó við að enn væri margt óráðið.
Mesta tap repúblikana þessar kosningarnar fólst í því að demókratinn John Fetterman var kjörinn öldungadeildarþingmaður Pennsylvaníu-ríkis. Trump hafði stutt repúblikanann Mehmet Oz en framboð Fettermans útmálaði hann sem moldríkan tækifærissinna frá New Jersey, sem lítil tengsl hafi við ríkið og sömuleiðis lítil tengsl við almenna borgara.
Helsti keppinautur Trump til að verða forsetaframboðsefni repúblikana í kosningunum árið 2024 er talinn vera Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída. Hann hefur þó, líkt og Trump, ekki formlega lýst yfir framboði.