Góðvinur Macron fyrir rétti fyrir byrlun

Titringur varð vegna málsins í innsta hring franskra stjórnmála enda …
Titringur varð vegna málsins í innsta hring franskra stjórnmála enda er Bigorgne vel þekktur og góðvinur forsetans, Emmanuel Macron. AFP/Ludovic Marin

Fyrrverandi stjórnandi áhrifamikillar hugveitu í París og góðvinur forsetans Emmanuels Macrons fór fyrir rétt í dag, sakaður um blanda alsælulyfinu Mollý saman við kampavín samstarfskonu sinnar.

Laurent Bigorgne sagði sig frá forystu hugveitunnar í febrúarmánuði eftir að samstarfskona hans, sem er einnig mágkona hans, ásakaði hann um að hafa sett lyf í glasið hennar áður en þau borðuðu saman kvöldverð á heimili hans.

Sophie Conrad, er yngri systir fyrrverandi konu Bigorgne, segir að hann hafi ætlað að nauðga henni, en saksóknarar hafa ekki lagt fram ákæru þess efnis.

Viss um að hann ætlaði að nauðga mér

„Ég efast ekki um að ástæðan fyrir því að hann setti eiturlyf í kampavínsglasið var af kynferðislegum toga og hann ætlaði sér að nauðga mér,“ sagði hún fyrir dómi í dag og bætti við að áður en þetta gerðist hefði hún litið á Bigorgne eins og eldri bróður sinn.

Hinn 48 ára gamli Bigorgne hafði notað kókaín þetta umrædda kvöld þann 22. febrúar.  Nú hefur hann verið ákærður fyrir byrlun en hámarksrefsing er fimm ára fangelsisdómur.

Notaði fjögur grömm af kókaíni á dag

„Ég snerti Sophie aldrei og myndi aldrei hafa níðst á henni,“ svaraði Bigorgne, og sagði að hann hefði ekki verið með réttu ráði því að á þessum tíma notaði hann allt að fjögur grömm af kókaíni á dag.

mbl.is/Getty Images

Hann viðurkenndi að byrlunin væri „hörmuleg, ógeðsleg og gunguleg hegðun,“ og hún væri fyrst og fremst dæmi um hvernig kókaínfíkn hans var komin út fyrir allan þjófabálk. Hann sagði í samtali við Le Monde að hann hefði leitað sér hjálpar við kókaínfíkninni og dvalið um tíma á geðsjúkrahúsi.

Þegar ásakanirnar gegn Bigorgne komu fyrst upp olli það miklum titringi í hugveitunni og meðal stjórnmálamanna, enda var hann þekktur fyrir að vera nákominn mörgum í innsta hring franskra stjórnmála. Hann var meðal annars þekktur fyrir að vera góðkunningi Macrons forseta og hafði lagt mikið til í kosningabaráttu hans til forsetaembættisins árið 2017. Fyrrverandi kona Bigorgnes hafði meira að segja lánað Macron íbúð til nota þegar hann var að stofnaði flokkinn En Marche! árið 2016.

Varð veik og fór á spítala

Conrad sagði að henni hefði orðið óglatt fljótlega eftir að hún drakk kampavínið heima hjá Bigorgne og eftir að hún fór á spítala kom í ljós að henni hafði verið byrlað MDMA eiturlyfið, öðru nafni Mollý.

Farið er fram á 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir Bigorgne og að hann sé skyldaður í fíknimeðferð.

Búist er við að dómur falli í málinu 8. desember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert