Hvítrússneski mannréttindafrömuðurinn og stjórnmálakonan Svetlana Tsíkhanovskaja segir pólitíska kúgun í Hvíta-Rússlandi hafa aukist eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.
Hún segir að með því að draga Hvíta-Rússland inn í stríð Pútíns hafi Lúkasjenkó, forseti landsins, ekki aðeins gerst samsekur, heldur hafi harðræði gagnvart almennum borgurum aukist.
Tsíkhanovskaja segir borgara Hvíta-Rússlands á móti þátttöku landsins í stríði Pútíns. Fjölmargir eigi á hættu að vera fangelsaðir fyrir það eitt að vera á móti stríðsrekstrinum.
„Ef maður er mótfallinn þátttöku landsins í stríðinu, er maður á móti stjórnvöldum,“ segir Tsíkhanovskaja sem er stödd hér á landi og ávarpaði Heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu í gær. Tsíkhanovskaja hlaut einnig brautryðjandaverðlaun ráðstefnunnar auk Bidhya Devi Bhandari, forseta Nepal.
„Fjöldi pólitískra fanga eykst með hverjum deginum sem líður og fólk er að flýja landið unnvörpum,“ segir hún. „En þrátt fyrir allan þennan ótta og þessa miklu misbeitingu valds hefur hvítrússneskt fólk ekki gefist upp.“
Enn fremur segir Tsíkhanovskaja að baráttan hafi að mörgu leyti færst undir yfirborðið auk þess sem þau sem flúið hafa land haldi baráttunni áfram úr útlegð. „Verkefnið okkar núna er að vera stefnuföst og halda baráttunni áfram. Að gefa Lúkasjenkó ekki eftir að þurfa ekki að svara fyrir glæpi sína gegn mannkyninu.“
Tvö ár eru liðin frá kosningunum þar sem Svetlana bauð Alexander Lúkasjenkó birginn og er af mörgum sérfræðingum í alþjóðastjórnmálum talin réttmætur forseti Hvíta-Rússlands.
Hún segir að eftir kosningarnar, sem ekki hafa verið viðurkenndar af alþjóðasamfélaginu, komi það mestmegnis í hlut karla að halda út á götur bæja og borga og mótmæla. „Fyrstu þrír dagarnir eftir kosningarnar voru algjört helvíti í Hvíta-Rússlandi. Mörg þúsund voru tekin höndum og lamin til óbóta,“ segir Tsíkhanovskaja frá.
Í kjölfarið héldu konur út á göturnar að mótmæla. „Ég held að konur hafi haldið að stjórnvöld gætu hreinlega ekki beitt konur sama ofbeldi og pyntingum og menn höfðu verið beittir,“ segir hún. Annað kom á daginn. „Ég held að konum hafi tekist að skapa mikinn glundroða með mótmælum sínum til að byrja með. En en eftir því sem leið á vorum við beittar ótrúlegu ofbeldi.“
„Núna sjá stjórnvöld engan mun á því að pynta karla og að pynta konur.“
Tsíkhanovskaja segir konur að mörgu leyti viðkvæmari fyrir valdbeitingu þar sem börnum og fjölskyldum þeirra er frekar beitt gegn þeim.
„Ég sjálf stóð frammi fyrir ákvörðun árið 2020 um að fara í fangelsi eða flýja land og til barnanna minna sem þegar var búið að koma úr landi. Móðureðlið í mér sigraði á þeirri stundu. Ég er viss um að margar hvítrússneskar konur hafi staðið frammi fyrir svipaðri ákvörðun,“ segir Tsíkhanovskaja og bætir við að þó séu fjölmargar konur pólitískir fangar í Hvíta-Rússlandi sem stendur.
Einnig séu fjölmörg dæmi um að hjón séu bæði í fangelsi og að börn þeirra hafi þurft að flýja land, jafnvel með öldruðum ömmum og öfum.
„Núna, sem og árið 2020, eru konur í Hvíta-Rússlandi að sýna gríðarlegt hugrekki og gríðarlega staðfestu. Þær eru ekki að berjast fyrir einhverskonar draumkenndu lýðræði, þær eru að berjast fyrir framtíð barnanna sinna.“
Svetlana Tsíkhanovskaja hikar og hugsar sig um hvernig hún vilji komast að orði og segir að endingu:
„Börnin eru okkur allt. Konur eru tilbúnar að berjast til síðasta blóðdropa fyrir börnin sín.“