Sendifulltrúi Katar sagði samkynhneigð „hugsanavillu“

HM í Katar hefst þann 20. nóvember næstkomandi.
HM í Katar hefst þann 20. nóvember næstkomandi. AFP/Karim Jaafar

Khalid Salman, sendifulltrú Katar vegna HM í knattspyrnu þar í landi, segir samkynhneigð vera „hugsanavillu“ og að mikilvægt sé að samkynhneigt fólk sem sæki Katar heim vegna HM fylgi reglum sem þar gilda.

Þetta kom fram í viðtali við Salman á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF á mánudag, en mótið hefst þann 20. nóvember næstkomandi.

Viðtalið, sem fór fram í Doha, höfuðborg Katar, var stöðvað þegar Salman var kominn inn á þessa braut, af opinberum starfsmanni skipulagsnefndar mótsins.

Óttast að börnin læri eitthvað „ekki gott“

Salman sagði einnig að samkynhneigð væri bönnuð samkvæmt íslömskum lögum og þar sem margir gestir myndu sækja Katar heim vegna HM væri mikilvægt að tala um samkynhneigt fólk í því samhengi.

„Það sem skiptir mestu mál er að allir samþykkja að þau komi hingað. En þau verða að virða okkar reglur,“ sagði Salman. Þá sagðist hann óttast að börnin gætu lært eitthvað sem væri „ekki gott“.

Salman var landsliðsmaður í knattspyrnu og spilaði fyrir Katar á níunda og tíunda áratugnum.

Sepp Blatter, fyrr­ver­andi for­seti FIFA, hefur sagt að Kat­ar hefði ekki átt að fá að halda HM 2022. Landið sé of lítið. Hann viðurkennir að hann beri ábyrgð sem forseti á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka