Bandarískur dómari dæmdi í dag samsæriskenningasmiðinn Alex Jones til að borga 473 milljónir dala hærri sekt vegna þess að hann hefði dreift samsæriskenningum um langt skeið þess efnis að hin skotárásin á Sandy Hook barnaskólann væri bara plat.
Sandy Hook barnaskólinn er í Connecticut-ríki og dómari þar dæmdi Alex Jones í síðasta mánuði til að greiða fjölskyldum átta fórnarlamba fjöldamorðsins bætur upp á 965 milljónir bandaríkjadala.
Dómari málsins, Barbara Bellis, ákvað að hækka sektargreiðsluna um 473 milljónir dala í dag. Hún sagði að Jones og fyrirtæki hans, Free Speech Systems, hefðu haldið uppi „stöðugum árásum á fjölskyldurnar í nærri áratug, og líka á meðan dómsmálið yfir morðingjanum stóð yfir, sem hefði verið vægðarlaust, illkvittið og svívirðileg framkoma,“ sagði Bellis.
„Þessi siðspilling og grimmilega, þráláta framkoma sakborninganna þarfnast áfellisdóms af hörðustu gerð,“ bætti hún við.
Jones, sem er stofnandi vefsíðunnar InfoWars og hefur stjórnað vinsælum útvarpsþætti, hefur verið dæmdur sekur í mörgum meiðyrðamálum vegna Sandy Hook fjöldamorðanna þar sem tuttugu börn og sex kennarar voru myrt.
Jones hafði haldið því fram árum saman í útvarpsþætti sínum að Sandy Hook fjöldamorðin væru „sett á svið“ af byssuandstæðingum og að foreldrarnir væru „leikarar“ en seinna viðurkenndi hann að fjöldamorðin hefðu átt sér stað.
Fjölskyldur Sandy Hook fórnarlambanna sögðu fyrir rétti að endalausar lygar Jones og geta hans til þess að hafa áhrif á þúsundir hlustenda þáttarins hefðu valdið þeim miklu tilfinningalegu áfalli. Fjölskyldurnar rifjuðu upp hvernig þær voru áreittar og þeim ógnað af aðdáendum Jones.
Jones var einnig ákærður fyrir að hafa með lygum sínum grætt stórfé á ýmsum varningi sem hann seldi á vefsíðu sinni.
Fyrr á árinu hafði dómari í Texas dæmt Jones til að greiða næstum 50 milljón dala sekt til Neil Heslin og Scarlett Lewis, sem misstu sex ára son sinn Jesse í Sandy Hook morðunum.
InfoWars vefsíðan og Free Speech Systems, fyrirtæki Jones lýstu yfir gjaldþroti í aprílmánuði.
Jones, sem er harður stuðningsmaður fyrrverandi forseta, Donald Trump, sætir einnig rannsókn vegna árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna 6. Janúar 2021. Trump var oft gestur í útvarpsþætti Jones í kosningabaráttunni um forsetaembættið 2016 og Jones var í Washington þegar stuðningsmenn Trump réðust á þinghúsið til að hamla því að Joe Biden gæti tekið við forsetaembættinu.