Demókratar halda völdum í öldungadeildinni

Cortez Masto stóð uppi sem sigurvegari í Nevada-ríki.
Cortez Masto stóð uppi sem sigurvegari í Nevada-ríki. AFP/Anna Moneymaker

Demókratar halda völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings næstu tvö árin eftir sigur Cathrine Cortez Masto í Nevada-ríki. Vann hún nauman sigur á Adam Laxalt, frambjóðanda repúblikana, sem hafði stuðning Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Demókratar hafa nú tryggt sér 50 þingsæti í öldungadeildunni á móti 49 sætum repúblikana. 100 sæti eru í öldungadeildinni og enn er óljóst hver skipar síðasta sætið því boða þurfti til annarrar umferðar í Georgíu þar sem hvorugum frambjóðenda tókst að tryggja sér meirihluta atkvæða.

En fari svo að repúblikanar sigri þá hefur Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, alltaf úrslitaatkvæði á þinginu og því ljóst að demókratar hafa náð meirihluta.

Einnig var kosið til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings síðastliðinn þriðjudag en þar eru úrslit ekki ljós. Líklegt þykir að repúblikanar fari þar með sigur af hólmi en það fæst ekki staðfest fyrr en talningu lýkur í nokkrum kjördæmum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert