Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur verið fluttur á sjúkrahús á Balí í Indónesíu en þar er hann staddur vegna alþjóðlegrar ráðstefnu G-20-ríkja.
Tveir af þremur heimildarmönnum AP-fréttastofunnar sögðu að hann hefði verið fluttur á sjúkrahús vegna hjartavandamála.
BREAKING: Russian Foreign Minister Sergey Lavrov taken to the hospital after arriving for the G-20 summit in Bali, Indonesian officials say. https://t.co/F3oUhTsCGf
— The Associated Press (@AP) November 14, 2022
Heimildarmennirnir, sem meðal annars koma úr indónesísku stjórnsýslunni, sögðu að Lavrov hefði verið fluttur á Sanglah-sjúkrahúsið í héraðshöfuðborginni Denpasar.
Lavrov er hæst setti rússneski embættismaðurinn sem ætlaði að taka þátt í ráðstefnunni, sem hefst á morgun.
G20-ráðstefnan er haldin á sama tíma og matar- og olíuverð hefur hækkað víða um heim vegna stríðsins í Úkraínu. Stríðið er þó ekki á opinberri dagskrá ráðstefnunnar.
Á meðal fleiri gesta verða Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína. Þar hittast þeir í fyrsta sinn augliti til auglitis síðan Biden tók við embætti.
Utanríksráðuneyti Rússlands hefur vísað á bug frétt AP um að Lavrov hafi verið fluttur á sjúkrahús og segir að um falsfrétt sé að ræða, að því er Reuters greinir frá.
„Þetta er, að sjálfsögðu, hápunktur falsfrétta,“ sagði María Zakharova, talskona ráðuneytisins.
Uppfært kl. 9.54:
Indónesísk yfirvöld segja að Lavrov hafi verið fluttur á sjúkrahús „í skoðun“ en hann hafi verið „útskrifaður fljótt“, að því er Sky News greinir frá.