Rússar sakaðir um stríðsglæpi í Kerson

Volodimír Selenskí.
Volodimír Selenskí. AFP/Genya Savilov

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sakaði í gær Rússa um að hafa framið fjölda stríðsglæpa í Kerson-héraði. „Rússneski herinn skildi eftir sömu voðaverkin og í öðrum héruðum okkar,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu í gærkvöldi og bætti við að rannsóknarteymi Úkraínumanna hefðu þegar skrásett rúmlega 400 stríðsglæpi eftir að herlið þeirra frelsaði héraðið að vesturbökkum Dnípró-fljótsins á föstudaginn.

„Við erum að finna lík hinna myrtu, bæði hermanna og óbreyttra borgara,“ sagði Selenskí og hét því að hinir seku yrðu dregnir til ábyrgðar. „Við munum finna og rétta yfir hverjum einasta morðingja,“ sagði Selenskí.

Frelsun borgarinnar er talin nokkurt áfall fyrir rússnesk stjórnvöld, en Kerson-hérað er eitt af þeim fjórum sem Rússar lýstu yfir að tilheyrðu nú Rússlandi um aldur og ævi. Ekkert hefur hins vegar enn heyrst frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta um brottför Rússa frá Kerson-borg. 

Pútín lýsti því hins vegar yfir fyrir helgi að hann hygðist ekki sækja leiðtogafund G20-ríkjanna sem haldinn verður í vikunni. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mun hins vegar sækja fundinn í hans stað, en Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði í fyrradag að Bretar ætluðu sér að nýta fundinn til að benda á „algjöra fyrirlitningu Rússa“ gagnvart alþjóðlegu samstarfi.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sagði sömuleiðis að ósigur Rússa í Kerson gæti fengið almenning í Rússlandi til að efast um stríðsreksturinn. „Venjulegt fólk í Rússlandi hlýtur að vera að spyrja sig: „Hver var tilgangurinn?““ sagði Wallace.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert