Þrír eru látnir og tveir særðir eftir skotárás á lóð Háskólans í Virginíu í Bandaríkjunum í morgun og leitar lögregla árásarmannsins, sem talinn er vopnaður og háskalegur, nú dyrum og dyngjum.
„Þetta er öllu háskólasamfélaginu skelfingaratburður og við höfum aflýst kennslu það sem eftir er dags,“ segir Jim Ryan, rektor háskólans, í samtali við AFP-fréttastofuna en árásarmaðurinn er talinn vera nemandi við skólann.
Þá eru fjórir nemendur Háskólans í Idaho í bænum Moscow þar í ríkinu einnig látnir eftir árás hverrar tildrög lögregla rannsakar nú. „Með sorg í hjarta tilkynni ég ykkur að okkur hafa borist fregnir af því að fjórir nemendur okkar hafi verið myrtir,“ segir Scott Green, rektor þar, í tilkynningu til nemenda skólans.