Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, voru sammála um það á fundi sínum í dag að aldrei skuli beita kjarnorkuvopnum, þar á meðal í Úkraínu.
„Biden forseti og Xi forseti ítrekuðu samkomulag sitt um að kjarnorkustríð skuli aldrei vera háð og að slíkt stríð muni aldrei vinnast. Þeir lögðu einnig áherslu á andstöðu sína við að beita eða hóta því að beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu,“ sagði í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu.
Þetta var í fyrsta sinn sem leiðtogarnir tveir hittust augliti til auglitis eftir að Biden tók við forsetaembættinu.
Biden sagði Xi að bandarísk stjórnvöld eigi að „halda áfram að keppa af fullum krafti“ við Kína en að „þessi samkeppni megi ekki snúast upp í deilu“.
Á fundinum, sem var haldinn á Balí í Indónesíu, sagði Biden að „árásargjarnar“ aðgerðir Kína gagnvart Taívan setji friðarhorfur í uppnám. Hann sagði við Xi að aðgerðirnar „grafi undan friði og stöðugleika í Taívansundi og á stærra svæði“.
Xi varaði Biden aftur á móti við því að fara ekki yfir „rauða línu“ kínverskra stjórnvalda þegar kemur að Taívan.
Kínverjar hafa löngum haft horn í síðu nágranna sinna frá Taívan og neitað að viðurkenna sjálfstæði þeirra.
Biden sagði Xi einnig að þjóðir heimsins eigi að hvetja Norður-Kóreu til að haga sér „á ábyrgan hátt“, en þjóðin hefur gert margar flugskeytatilraunir að undanförnu.