Tóku harða afstöðu gegn kjarnorkuvopnum

Joe Biden (til hægri) og Xi Jinping í Indónesíu í …
Joe Biden (til hægri) og Xi Jinping í Indónesíu í morgun. AFP/Saul Loeb

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, voru sammála um það á fundi sínum í dag að aldrei skuli beita kjarnorkuvopnum, þar á meðal í Úkraínu.

„Biden forseti og Xi forseti ítrekuðu samkomulag sitt um að kjarnorkustríð skuli aldrei vera háð og að slíkt stríð muni aldrei vinnast. Þeir lögðu einnig áherslu á andstöðu sína við að beita eða hóta því að beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu,“ sagði í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu.

Þetta var í fyrsta sinn sem leiðtog­arn­ir tveir hitt­ust aug­liti til aug­lit­is eft­ir að Biden tók við for­seta­embætt­inu.

Biden sagði Xi að bandarísk stjórnvöld eigi að „halda áfram að keppa af fullum krafti“ við Kína en að „þessi samkeppni megi ekki snúast upp í deilu“.

Joe Biden á fundinum í morgun.
Joe Biden á fundinum í morgun. AFP/Saul Loeb

Ræddu málefni Taívans

Á fundinum, sem var haldinn á Balí í Indónesíu, sagði Biden að „árásargjarnar“ aðgerðir Kína gagnvart Taívan setji friðarhorfur í uppnám. Hann sagði við Xi að aðgerðirnar „grafi undan friði og stöðugleika í Taívansundi og á stærra svæði“.

Xi varaði Biden aftur á móti við því að fara ekki yfir „rauða línu“ kínverskra stjórnvalda þegar kemur að Taívan.   

Kín­verj­ar hafa löng­um haft horn í síðu ná­granna sinna frá Taív­an og neitað að viður­kenna sjálf­stæði þeirra.

Biden sagði Xi einnig að þjóðir heimsins eigi að hvetja Norður-Kóreu til að haga sér „á ábyrgan hátt“, en þjóðin hefur gert margar flugskeytatilraunir að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka