Tvær íbúðabyggingar í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, urðu fyrir flugskeytum í dag, að sögn borgarstjórans Vítalí Klitsjkó.
Áður höfðu fregnir borist af því að loftvarnaflautur hefðu ómað víðs vegar um Úkraínu.
„Gerð var árás á höfuðborgina. Samkvæmt fyrstu upplýsingum var skotið á tvær íbúðabyggingar í hverfinu Petsjersk. Þó nokkur flugskeyti voru skotin niður yfir Kænugarði af loftvarnakerfum. Viðbragðsaðilar eru á staðnum þar sem árásirnar voru gerðar. Fleiri fregnir síðar,“ sagði Klitsjkó í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.
Úkraínsk stjórnvöld segja Rússa hafa staðið á bak við árásirnar.
Fólk hefur verið hvatt til að leita skjóls í loftvarnabyrgjum.