Úkraínska forsetaembættið segir ástandið víðs vegar um landið vera alvarlegt eftir að Rússar skutu um 100 flugkeytum í átt að landinu. Rafmagn fór af hluta Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu.
„Rússneskir hryðjuverkamenn gerðu enn eina árásina á orkuinnviði. Ástandið er alvarlegt,“ sagði Kriiló Tímósjenkó hjá forsetaembættinu í yfirlýsingu.
„Staðan í höfuðborginni er mjög erfið.“
Talsmaður úkraínska flughersins hafði þetta að segja: „Um 100 flugskeytum hefur verið skotið. Innrásarliðin fóru fram úr 10. október þegar þau skutu 84 eldflaugum,“ sagði Júrí Ígnat.
„Helstu skotmörkin voru mikilvægir innviðir. Einhver flugskeyti voru skotin niður, en við bíðum eftir nánari upplýsingum um það.“
Flugskeytum var m.a. skotið á íbúðabyggingar í Kænugarði. Einnig var skotið á borgirnar Lvív í vestri og Karkív í austri. Engar upplýsingar hafa borist um mannfall.