„Þessa eyðileggingu verður að rannsaka“

Olaf Scolz, kanslari Þýskalands.
Olaf Scolz, kanslari Þýskalands. AFP/Ludovic Marin

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, varar fólk við að hrapa að ályktunum vegna flugskeytaárásar á pólskan bæ við landamæri Úkraínu í gær, áður en niðurstöður rannsóknar liggja fyrir. Tveir létust í árásinni en ekki liggur fyrir hver það var sem ber ábyrgð á þeim.

„Þessa eyðileggingu verður að rannsaka, það þarf að rannsaka hluta úr flugskeytinu og síðan verðum við að bíða eftir niðurstöðum áður en þær verða birtar opinberlega,“ sagði Scholz við blaðamenn á fundi G20.

„Í svona alvarlegum málum má ekki hrapa að ályktunum um atburðarásina fyrir vandaða rannsókn,“ bætti kanslarinn við.

Pólland hluti af NATO

Fregnirnar í gær um flugskeytaárásina vöktu mikil viðbrögð og þá fyrst og fremst vegna þess að Pólland á aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). 

Í fyrstu var talið að Rússar bæru ábyrgð á flugskeytinu en þeir höfðu staðið fyrir umfangsmikilli loftárás á Úkraínu yfir daginn. Þeir hafa þó vísað þeim ásökunum á bug.

Eftir nánari skoðun hefur komið í ljós að mögulega megi rekja flugskeytin til úkraínska hersins. Benda niðurstöður frumrannsóknar til þess að flugskeytin sem hæfðu Pólland hafi verið ætlað að skjóta niður rússneskar flaugar sem stefndu að byggð.

Sendi­herr­ar NATO hófu neyðarviðræður í morg­un en hérna heima fundar utanríkismálanefnd núna um stöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert