Villimannslegar árásir

Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyñski.
Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyñski. mbl.is/Arnþór Birkisson

Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að mannskæður atburður í Póllandi í gær sé sorglegur en Pólverjar sýni því skilning að Úkraínumenn taki til varna þegar á þá er ráðist.

„Nú vitum við nokkurn veginn hvað gerðist en bæði lögregluyfirvöld og herinn í Póllandi hafa rannsakað málið. Í gærkvöldi gerðu Rússar mjög stóra eldflaugaárás á Úkraínu og Úkraínumenn hafa auðvitað rétt á að verja sig. Þarna var tæplega eitt hundrað eldflaugum skotið á Úkraínu.

Varnir Úkraínu gerðu það líklega að verkum að ein eða tvær flaugar fóru inn á landsvæði Póllands. Um sex kílómetra frá landamærunum við Úkraínu. Því miður létust tveir einstaklingar og voru báðir pólskir ríkisborgarar. Þetta er sorglegt en við höfum skilning á því að Úkraínumenn þurfi að verja sig við slíkar aðstæður.“

Rannsóknarlögreglumenn leita að braki úr eldflauginni í grennd við pólska …
Rannsóknarlögreglumenn leita að braki úr eldflauginni í grennd við pólska þorpið Przewodow. AFP

Staðan hefði orðið mjög alvarleg

„Á hinn bóginn þykir okkur villimannslegt af hálfu Rússa að gera slíkar árásir og virðast ekki einu sinni velta fyrir sér hversu nærri átökin eru pólsku landamærunum. Þar af leiðandi geta slys eins og þessi gerst á pólskri grundu eða í öðrum ríkjum sem eiga landamæri að Úkraínu eins og Slóvakía eða Ungverjaland.

Maður er undrandi á því að á tuttugustu og fyrstu öldinni skuli það gerast að ríki ráðist inn í nágrannaríki og ráðist á almenna borgara eins og gert var í síðari heimsstyrjöldinni,“ segir Pokruszynski en í ljósi þeirrar óvissu sem uppi var um tildrög atviksins þá hefur Pokruszynski tæplega hvílst vel um nóttina. 

„Í morgun biðum við þess að vita nánar um hvað átti sér stað. Hefði þetta verið árás hjá Rússum á Pólland þá tel ég að staðan hefði orðið mjög alvarleg fyrir aðildarþjóðir NATO. Íslensk stjórnvöld fylgdust grannt með gangi mála og voru svo vinsamleg að hafa samband við mig.

Martin Eyjólfsson [ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins] hringdi í mig í gærkvöldi og við ræddum stöðuna. Ég fann því fyrir stuðningi Íslendinga og í framhaldinu fór utanríkisráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fram á að málið yrði rætt í utanríkisnefnd þingsins með þátttöku Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna alvöru málsins.“

Lögregla við vegartálma nærri staðnum þar sem eldflaugin kom niður …
Lögregla við vegartálma nærri staðnum þar sem eldflaugin kom niður í gær. AFP

Enginn vill vera í stríði að Rússum undanskildum

Sendiherrann leggur áherslu á að Pólverjar styðji við bakið á Úkraínumönnum en sýni um leið yfirvegun á hinu pólitíska sviði.

„Í gærkvöldi voru miklar vangaveltur um hvað hefði gerst sem er eðlilegt. Ég fylgdist með hinum ýmsu fjölmiðlum í Póllandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og á Ítalíu svo eitthvað sé nefnt og alls staðar var þetta atvik á dagskrá. Um leið og við styðjum Úkraínu þá viljum við heldur ekki að átökin færist í aukana eða breiði úr sér.

Þar af leiðandi biðu pólsk stjórnvöld átekta áður en stórar yfirlýsingar voru gefnar út. Betra er að sleppa því að tjá sig, skömmu eftir slíka atburði, heldur en að láta tilfinningarnar ráða för því það getur reynst hættulegt.

Mikilvægast er að halda friðinn enda vill enginn vera í stríði, að Rússum undanskildum. Af einhverjum ástæðum sem erfitt er fyrir okkur að skilja þá er meirihluti rússneskra borgara hlynntur þessum stríðsrekstri eða um 70% samkvæmt könnunum. Úkraína á rétt á að vera sjálfstætt ríki og á rétt á að njóta frelsis,“ segir Gerard Pokruszynski í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert