Hollenska utanríkisráðuneytið hefur boðað rússneska sendiherrann þar í landi á fund eftir að rússnesk stjórnvöld gagnrýndu niðurstöðu dóms í máli MH17-farþegaflugvélarinnar sem var grandað yfir Úkraínu árið 2014.
Rússneska utanríkisráðuneytið telur niðurstöðu hollenska dómstólsins pólitíska og að um hneykslismál sé að ræða.
Flugvélin sem um ræðir var á leið frá Hollandi til Malasíu var skotin niður yfir Úkraínu með þeim afleiðingum að allir 298 um borð létust.
Tveir Rússar og úkraínskur aðskilnaðarsinni voru sakfelldir í gær af hollenskum dómstóli en samkvæmt niðurstöðu dómsins var árásin gerð vísvitandi. Talið er þó að þeir hafi staðið í trú um að þarna hafi úkraínsk herflugvél verið á ferð.
Mennirnir þrír voru ekki viðstaddir uppkvaðningu dómsins og þykir ólíklegt að þeir muni sitja inni fyrir glæpinn.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa virt dóminn að vettugi og segja hollenska dómstólinn hafa verið undir fordæmalausum þrýstingi frá stjórnvöldum, saksóknurum og fjölmiðlum.
Utanríkisráðuneytið í Rússlandi sagði í yfirlýsingu að réttarhöldin færu líklega í sögubækurnar fyrir að vera eitt stærsta hneykslismál frá upphafi réttarfars.