Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi, segir að opnun sendiráðs Íslands í Póllandi í næsta mánuði komi á góðum tímapunkti.
„Ég tel það vera afar mikilvægt að Ísland hafi ákveðið að opna sendiráð í Varsjá en það verður 1. desember næstkomandi eins og fram hefur komið. Ég myndi segja að tímasetningin sé mjög góð því sendiherrann í Póllandi, Hannes Heimisson, verður einnig sendiherra gagnvart Úkraínu. Þessi sendiherrastaða verður því mikilvæg út frá því sem er að gerast í álfunni,“ segir Pokruszynski í samtali við mbl.is.
„Þegar innrás Rússa hófst þá sagði ég við Martin Eyjólfsson [ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu] að samstaða væri sterkasta vopn okkar í Evrópu. Samstaðan er til staðar hjá Evrópuríkjum og það hefur sýnt sig. Rússar eru vitaskuld hættulegir en komið hefur í ljós að her Rússa er ekki jafn skilvirkur og talið var. Áróðurinn gekk út á að Rússlandsher væri sá næstöflugasti í heiminum en reyndin er önnur. Herinn er fjölmennur en virðist ekki skilvirkur.“
Gerard Pokruszynski þykir grimmdin vera mikil í hernaði Rússa í Úkraínu og er ekki einn um þá skoðun.
„Á G20 ráðstefnunni [í Indónesíu] í vikunni ræddu menn um innrásina og kölluðu eftir því að Rússar myndu láta af þessum árásum. Nánast á sama tíma skutu þeir tæplega 100 eldflaugum á Úkraínu. Miðuðu á borgir og mikilvæga innviði eins og orkuvinnviði. Þetta er með ólíkindum. Mér skilst að þeir hafi ætlað sér að eyðileggja orkuinnviði Úkraínu vegna þess að veturinn sé í nánd. Grimmdin er mikil og við Pólverjar getum átt von á að hundruð þúsunda muni flýja til Póllands frá Úkraínu í vetur þegar harðnar á dalnum. Sérstaklega í austurhluta Úkraínu. Karlarnir munu berjast áfram en konur og börn verða væntanlega á flótta til að komast af,“ segir Pokruszynski og bendir á að margir Pólverjar hýsi flóttafólk á heimilum sínum.
„Nú þegar hafa tvær milljónir manna komið til Póllands frá Úkraínu og fyrir Pólverja er því stór áskorun að búa flóttafólkinu ásættanlegar aðstæður. Þriðjungur þessa fólks eru börn og þau þurfa að fá menntun. Við höfum ekki burði til að byggja nýja skóla á nokkrum mánuðum og þurfum að bjóða þeim að ganga í þá skóla sem fyrir eru. Reyndar er einnig nokkuð um lærða kennara í hópi flóttafólks og það hjálpar til í kennslu fyrir börn á flótta. Svo heppilega vill til að margt er líkt með tungumálunum en Úkraínumönnum og Pólverjum gengur ágætlega að skilja hverja aðra. Það hjálpar. Við viljum gjarnan útvega fólki vinnu og einhvers konar afþreyingu þannig að líf fólks verði eins eðlilegt og það getur orðið við þessar aðstæður. Í Póllandi hafa ekki verið reistar flóttamannabúðir og flóttafólk býr á heimilum fólks í Póllandi en einnig á hótelum.“
Pólverjar hafa lýst eindregnum stuðningi við Úkraínu í átökunum eins og þekkt er. Þeir eru ofarlega á lista yfir þær þjóðir sem hafa aðstoðað úkraínska herinn hvað mest varðandi vopn eða fé.
„Af landfræðilegum ástæðum þá hefur Pólland einnig leikið stórt hlutverk í að koma varningi til Úkraínu. Enn sem komið er tekst okkur að sinna þessu hlutverki en það hefur auðvitað verið gert með mikilli hjálp frá Atlantshafsbandalaginu, NATO. Bandaríkin, Bretland, Eystrasaltsþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar hafa stutt vel við bakið á Úkraínumönnum en einnig má nefna fleiri eins og Tékkland og Slóvakíu. Við finnum fyrir miklum stuðningi frá Norðurlöndunum og Íslendingar hjálpa til þótt þjóðin sé ekki með her. Reyndar hefur innrásin breytt landslaginu í öryggismálum í Evrópu eins og við sjáum með umsókn Svía og Finna í NATO,“ greinir hann frá.
Gerard Pokruszynski er enginn nýgræðingur í utanríkisþjónustu Póllands. Þar hefur hann starfað frá árinu 1991 eða frá þeim tíma þegar miklar breytingar urðu í Evrópu þegar Berlínarmúrinn féll, Þýskaland sameinaðist, Sovétríkin liðuðust í sundur sem og í framhaldinu Tékkóslóvakía og Júgóslavía. Talar hann fjögur tungumál utan móðurmálsins og þar á meðal rússnesku. Hefur hann gegnt ýmsum störfum í utanríkisþjónustunni og búið á Ítalíu, í Frakklandi, Svíþjóð og í Kænugarði í Úkraínu.
Pokruszynski hefur því ágæta þekkingu á samskiptum Rússa og Úkraínumanna.
„Já ég var í Kænugarði frá 2011 til 2015 og fylgdist grannt með byltingunni á árunum 2013 og 2014. Úkraínumenn eru hugrakkir og voru tilbúnir að berjast fyrir frelsi og sjálfstæði. Minnti þetta mig svolítið á andrúmsloftið í Póllandi á námsárum mínum. Árið 2014 fylgdist ég einnig með átökunum á Krímskaganum og í Donbass. Þegar ég átti samtöl við Úkraínumenn á þessum tíma þá sögðust þeir aldrei hafa komið fram við Rússa sem óvini. Þeir litu svo á að ef einhvern tíma kæmi til átaka þá yrði það frekar ógn úr vestri. Eftir á að hyggja hljómar þetta undarlega og staðan hefur því breyst mikið.
Ég myndi segja að Rússar hafi sjálfir búið til óvin. Um tíma voru samskiptin vinsamleg og rússneska var vinsæl á meðal Úkraínumanna. Það hefur einnig breyst og nú heyrist rússneska sjaldan í Kænugarði þótt rússneska sé töluð í austurhlutanum.“
Spurður um hvaða skoðanir Pólverjar hafi á stríðinu í Úkraínu segist Pokruszynski telja að þeim sé efst í huga að koma fólki í Úkraínu til aðstoðar eftir fremsta megni.
„Mér hefur fundist sem Pólverjar vilji aðstoða Úkraínumenn sem mest. Ekki einungis vegna frelsis í Úkraínu heldur vegna frelsis í allri Evrópu og þeirra gilda sem viðhöfð eru í lýðræðisríkjum. Eftir atvikið í Póllandi nærri landamærunum við Úkraínu [í vikunni] þá leiða Pólverjar frekar hugann að þeirri hættu sem gæti steðjað að. Stjórnvöld í Póllandi hafa stækkað herinn um helming. Nú eru um 140 þúsund hermenn í Póllandi en eftir tvö ár verða þeir orðnir um 300 þúsund. Auk þess stendur til að festa kaup á vopnum frá Suður-Kóreu, til dæmis skriðdrekum og flugvélum. Við lítum svo á að vegna staðsetningar Póllands þá veiti okkur ekki af herstyrk. Atburðirnir í Úkraína sýna okkur svart á hvítu hver raunveruleikinn er. Fólk í Litháen, Finnlandi eða Svíþjóð er eflaust sammála okkur,“ segir Gerard Pokruszynski ennfremur.