Búið er að nafngreina manninn sem grunaður er um að hafa skotið að minnsta kosti fimm manns til bana á næturklúbbi hinsegin fólks í bandarísku borginni Colorado Springs í gærkvöldi, en það er hinn 22 ára gamli Anderson Lee Aldrich. Hann er nú í haldi lögreglu.
Tveir menn unnu hetjudáð inni á staðnum þegar þeim tókst að yfirbuga árásarmanninn að sögn lögreglu. Tvö skotvopn fundust á vettvangi og er talið að hinn grunaði hafi notað riffil, að því er BBC greinir frá.
„Fyrstu vísbendingar og viðtöl benda til þess að hinn grunaði hafi farið inn í Club Q og byrjað strax að skjóta fólk á meðan hann færði sig lengra inn í klúbbinn,“ sagði lögreglustjórinn Adrian Vasquez á blaðamannafundi í dag.
Mönnunum tókst að koma í veg fyrir að hinn grunaði hélt áfram að drepa og skaða aðra. „Við eigum þeim mikið að þakka,“ sagði Vasquez.
Lögreglan hefur beðið fólk að sýna þolinmæði á meðan verið er að bera kennsl á fórnarlömbin og fjölda látinna.
Forsvarsmenn næturklúbbsins, Club Q, sögðust í yfirlýsingu vera eyðilagðir yfir þessari grimmilegu árás á samfélagið.
Facebook-síða klúbbsins er yfirfull af samúðarkveðjum víðsvegar að úr heiminum. Ein manneskja skrifaði að klúbburinn hefði verið eins og heimilið hennar í mörg ár og var algjörlega niðurbrotin vegna atviksins.