„Þið verðið að gera eitthvað!“

Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995. …
Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995. Er ráðgátan um ódæðismanninn að leysast tæpum 30 árum síðar? Ljósmynd/Úr einkasafni

Laugardagurinn 6. maí 1995 er dagur sem Joe Halvard Braseth, þá lögregluþjónn í Skudenes á Karmøy, eyju úti fyrir Haugesund á vesturströnd Noregs, gleymir seint. Það var dagurinn sem lík 17 ára gamallar stúlku, Birgitte Tengs, fannst hryllilega útleikið við Gamle Sundvegen þar á eynni.

Hafði Tengs verið nauðgað og hún myrt og voru áverkarnir á líki hennar hrottalegir að sögn Braseth og annarra lögregluþjóna er vitnað hafa fyrir héraðsdómi. Bóndi nokkur fann líkið og taldi fyrst að óheppinn ökumaður hefði ekið á kind þegar hann sá blóðslóðina á fáförnum sveitaveginum, Gamle Sundvegen. Sá hraðaði sér heim, hringdi í lögregluna og hóf símtalið á orðunum „Þið verðið að gera eitthvað! Þetta er skelfilegt!“

Bóndinn þekkti Tengs þegar í stað. Hún og frænka bóndans höfðu verið góðar vinkonur og þegar hann var barn voru þeir faðir Tengs leikfélagar. Eins og gengur og gerist í litlum samfélögum, allir þekktu alla í Skudenes, á eyju sem Snorri Sturluson ritaði um í Heimskringlu. Þar var konungssæti og þar, í Ögvaldsnesi, sat Ögvaldur konungur.

Hafði Ögvaldur kú sína í miklum metum, nánast sem guð, og hermdi Snorri eftirfarandi af honum í Ólafs sögu Tryggvasonar: „...ok blét kú eina mest, ok hafði hann hana með sér, hvargi er hann fór, ok þótti hon­um þat heil­næmligt at drekka jafn­an mjólk henn­ar.“

Rannsóknin á afturfótunum

Lögreglan í Karmøy var gagnrýnd harðlega við og í kjölfar rannsóknar málsins. Völsuðu lögregluþjónar þar um vettvang líkfundarins og eyðilögðu líklega allar vísbendingar er þar hefðu getað fundist. Spurðu þeir til að mynda bóndann sem fann líkið hvort hann ætti plastábreiðu sem nota mætti til að hylja líkið.

Maður á sextugsaldri er grunaður um að hafa myrt Tengs …
Maður á sextugsaldri er grunaður um að hafa myrt Tengs árið 1995. Sá heitir Johny Vassbak og hefur verið nafngreindur í norskum fjölmiðlum. Héraðsdómur hefur nú dómtekið mál hans að lokinni aðalmeðferð. Ljósmynd/Úr einkasafni

Téð rannsókn var á afturfótunum frá upphafi. Lögreglan taldi sig komna á ör­uggt spor þegar hún hand­tók frænda Tengs og gekk það mál svo langt að frænd­inn hlaut 14 ára dóm í Héraðsdómi Karmøy árið 1997 fyr­ir að stytta frænku sinni ald­ur. Áfrýjaði hann þeirri niður­stöðu til Lög­manns­rétt­ar Gulaþings sem sneri dómi héraðsdóms og sýknaði frænd­ann árið 1998.

Áfrýj­un­ar­dóm­stóll­inn felldi hins veg­ar ekki niður þann hluta dóms­ins í héraði sem sneri að skaðabóta­greiðslu frænd­ans til fjöl­skyldu Tengs. Hann lagði þann hluta máls­ins fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu sem komst að þeirri niður­stöðu að lög­manns­rétt­ur­inn hefði brotið gegn þeirri meg­in­reglu refsirétt­ar sem á lat­ínu heit­ir in dubio pro reo og snýr að því að all­an vafa í saka­mál­um skuli meta ákærða í hag. Það breytti hins veg­ar engu um að skaðabótakraf­an stóð óhögguð í Nor­egi.

Öll sund lokuð?

Í fyrra var hins vegar maður á sextugsaldri handtekinn og er sá nú ákærður. Hafði þá kaldmálahópur norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, „cold case gruppa“ eins og hún kallast, legið yfir málinu um árabil er öll sund töldust lokuð. Taldi hópurinn jafnvel að sá sem nú er ákærður hefði líf Tinu Jørgensen enn fremur á samviskunni, tví­tugr­ar stúlku sem hvarf spor­laust í miðbæ Stavan­ger aðfaranótt 24. sept­em­ber 2000 og fannst myrt mánuði síðar í hol­ræsi við Bore-kirkj­una í Klepp.

„Ég kom að Birgitte og sá hana liggja þarna, ég kom á vettvang klukkan 13:25 og hóf leitina 13:35,“ segir Øyvind Kjetland hundaþjálfari er mætti með sporhund sinn á vettvang líkfundarins.

Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og gerir enn. …
Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og gerir enn. Hver kemst upp með manndráp á Karmøy? Þeirri spurningu er enn ósvarað. Skjáskot/Stavanger Aftenblad

Sem fyrr segir er lögregla nánast talin hafa útilokað að nokkuð gagnlegt fyndist á vettvangi. Blóðblettur á sokkabuxum Tengs er talinn hafa verulegt sönnunargildi í kjölfar nýrrar DNA-rannsóknar á stofu í Austurríki. Mikil leynd hvílir þó yfir uppruna sýnisins og kveðast sumir norskir fjölmiðlar sig hafa heimildir fyrir því að það sé komið úr mannshári sem fannst á líkinu.

Þetta skiptir öllu máli. Gætu óvarkárnir lögregluþjónar hafa skilið eftir sig lífssýni á vettvangi? Það reynir Stian Kristensen, verjandi ákærða, af öllum mætti að sýna fram á. Sýnið sé ekki úr eða af skjólstæðingi hans, það eigi uppruna sinn hjá einum lögregluþjónanna. Engin svörun hefur þó fundist hjá þeim er útkallinu sinntu. Hver á ókunna sýnið?

Þrír áratugir liðnir

Thale Thomseth saksóknari er á öðru máli og er fjöldi lögregluþjóna, vitni í málinu, þráspurður um ferðir sínar um svæðið. Hverju klæddust lögregluþjónarnir, hve nálægt líkinu fóru þeir, snertu þeir það áður en tæknimenn komu á staðinn?

Ekki allt auðveldar spurningar um laugardag í maí 1995, síðan eru nær 30 ár liðin. Það er því héraðsdómenda að kveða upp dóm í máli þessarar ógæfusömu stúlku, Birgitte Tengs. Er ákærði sá sem kaus henni örlög vorið 1995? Eða hefur hann setið saklaus í haldi síðan í fyrrahaust? Aðalmeðferð er nú lokið og málið dómtekið. Áfrýjun er nær örugg hvort sem ákærði verður sekur eða sýkn fundinn fyrir héraðsdómi í voveiflegasta manndrápsmáli sem íbúar gamla konungasetursins Karmøy, eða Körmt í skrifum Snorra Sturlusonar, muna.

NRK

Nettavisen

Dagsavisen

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert