Metfjöldi barna var ekki bólusettur gegn mislingum á síðasta ári kemur fram í samvinnuskýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar(WHO) og Sóttvarnarmiðstöðvar Bandaríkjanna (CDC) sem birt var í dag. Í skýrslunni kemur fram að þessi fjöldi óbólusettra barna sé mikið bakslag í baráttunni gegn mislingum, en 40 milljónir barna voru ekki sprautuð gegn sjúkdómnum á síðasta ári.
Formaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, Tedros Adhanon Ghebreyesus, sagði að það væri fáránlegt að bóluefni gegn Covid-19 hefðu verið framleidd og dreifð á mettíma, þá sætu hefðbundnar bólusetningar á hakanum og stofnaði þar með milljónum í hættu.
„Það er algjört lykilatriði að hefðbundnar bólusetningar komist í eðlilegt horf. Á bak við tölurnar í skýrslunni eru börn sem eru í hættu að fá lífshættulegan sjúkdóm sem auðvelt er að koma í veg fyrir.“
Samkvæmt skýrslunni fengu 25 milljón börn ekki fyrsta skammt bóluefnisins gegn mislingum og 14,7 milljónir fengu ekki skammt tvö.
Hægt er að halda mislingum alveg í skefjum með bólusetningum, en vegna þess að mislingar eru svo bráðsmitandi þarf 95% barna að vera bólusett svo hjarðónæmi myndist.
Í fyrra voru aðeins 81% bólusett á heimsvísu með fyrri skammti bólusetningar og aðeins 71% fengu annan skammtinn. Þetta eru lægstu tölur um bólusetningu gegn sjúkdómnum sem sést hafa frá 2008.
Þau lönd sem höfðu hæsta hlutfall óbólusettra barna eru Nígería, Indland, Kongó, Eþíópía og Indónesía. Frá árinu 2016 hafa tíu lönd sem áður höfðu útrýmt sjúkdómnum fengið upp tilfelli og smit.
Mislingafaraldur er nú í Mumbai á Indlandi og í gær höfðu 11 börn látist vegna hans.
Einkenni mislinga er hár hiti og útbrot, en sjúkdómurinn er oft mest smitandi áður en útbrotin koma fram. Alvarlegir fylgikvillar mislinga getur verið lungnabólga og heilabólga sem getur valdið varanlegum skaða.