Blaðamaðurinn E. Jean Carroll höfðar nú mál á hendur Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta en hún sakar hann um að hafa nauðgað sér um miðjan tíunda áratuginn.
Carroll hafði áður farið í mál við Trump í nóvember árið 2019 en í gær tóku ný lög gildi í New York ríki þar sem fyrning er aflögð ef fórnarlömb kynferðisofbeldis vilja höfða skaðabótamál.
E. Jean Carroll er 78 ára gömul en hún var lengi pistlahöfundur hjá tímaritinu Elle. Segir hún Trump hafa nauðgað sér í mátunarklefa í versluninni Bergdorf Goodman í New York.
Trump neitar sök og segist aldrei hafa hitt Carroll um dagana.
Búist er við að réttarhöldin hefjist í byrjun næsta árs.