Mótmæla í kjölfar þess að 10 létust

Strangar Covid-19 samkomutakmarkanir hafa verið í gildi í Kína í …
Strangar Covid-19 samkomutakmarkanir hafa verið í gildi í Kína í gegnum faraldurinn. AFP/Jade Gao

Myndefni sem komst í dreifingu á samfélagsmiðlum í gær sýnir íbúa í borginni Urumqi, í Xinjian-héraðinu í norðvesturhluta Kína, mótmæla ströngum samkomutakmörkunum vegna Covid-19. „Bindið enda á Covid-útgöngubannið,“ hrópuðu mótmælendur sem höfðu safnast saman að kvöldi til á götum borgarinnar. BBC greinir frá.

Mótmælin sem minnst er á hér að ofan virðast hafa brotist út í kjölfar þess að 10 létust í húsbruna á fimmtudaginn í Urumqi. Íbúi í fjölbýlishúsinu segir að mörgum hafi ekki verið hleypt út úr brennandi byggingunni en strangar samkomutakmarkanir hafa ríkt í héraðinu frá því snemma í ágúst.

Yfirvöld í borginni hafa neitað ásökunum um að takmarkanir hafi komið í veg fyrir að flótta fólks úr brennandi byggingunni. Engu að síður hefur borgin gefið út óvenjulega yfirlýsingu þar sem fram kemur að yfirvöld muni refsa þeim sem brugðust skyldum sínum.

Vaxandi óánægja

Mikil ritskoðun fer fram á kínverskum samfélagsmiðlum og fjölmiðlum en myndefnið af mótmælunum er nú hvergi finnanlegt á samfélagsmiðlum.

Mótmæli eru ekki algeng í Kína en vaxandi óánægja hefur verið með stranga Covid-stefnu kínverskra stjórnvalda sem hafa margsinnis gripið til útgöngubanns með það að markmiði að útrýma Covid-smitum í landinu. Þrátt fyrir takmarkanirnar greindist metfjöldi smita í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert