Kalla eftir því að forsetinn víki

Frá mótmælum í morgun.
Frá mótmælum í morgun. AFPTV / AFP

Reiðir mótmælendur gengu fylktu liði um götur Sjanghaí í Kína í morgun og kölluðu eftir því að yfirvöld myndu binda enda á útgöngubannið sem er í gildi vegna Covid-19. Vaxandi óánægja hefur verið meðal Kínverja vegna langvarandi og harðra samkomutakmarkana. 

Markmið kínverskra yfirvalda í gegnum faraldurinn hefur verið að útrýma Covid-smitum í landinu. Með hörðum sóttvarnaaðgerðum hefur tekist að halda fjölda smita niðri en erfiðlega hefur þó gengið að koma alveg í veg fyrir þau. Síðustu daga hafa í kringum 30 þúsund greinst með veiruna á hverjum degi.

Á myndskeiðum sem hafa verið birt á samfélagsmiðlum má heyra mótmælendur hrópa og kalla eftir því að Xi Jiping, forseti Kína, víki úr embætti.

Tíu dóu í brunanum

Í gegnum faraldurinn hefur ekki mikið borið á mótmælum í Kína vegna aðgerða stjórnvalda. Það breyttist þó í vikunni í kjölfar þess að tíu manns létust í eldsvoða eftir að það kviknaði í fjölbýlishúsi í borginni Urumqi í Xinjiang-héraðinu

Talið er að strangar sóttvarnaraðgerðir hafi leitt til þess að fleiri létust í brunanum en íbúi í húsinu hefur greint frá því að mörgum hafi ekki verið hleypt út úr brennandi byggingunni. Yfirvöld í borginni hafa neitað ásökunum en gáfu engu að síður út óvenjulega yfirlýsingu þar sem fram kom að yfirvöld muni refsa þeim sem brugðust skyldum sínum í tengslum við brunann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert