Peðið sem breyttist í kóng

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur blásið þjóð sinni baráttuþrek í …
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur blásið þjóð sinni baráttuþrek í brjóst. AFP

„Selenskí kom mér, eins og fleirum, í opna skjöldu. Stríðið hefur gert honum kleift að sýna sig í nýju ljósi sem stjórnmálamann. Hildarleikurinn breytti pólitískum viðvaningi í alvöru forseta og æðsta yfirmann úkraínska hersins. Það sem gerði Selenskí þó öðru fremur fært að sýna baráttuþrek sitt var sú staðreynd að úkraínska þjóðin gekk óttalaus á hólm við Rússana.“

Þetta segir úkraínski blaðamaðurinn og stjórnmálaskýrandinn Serhii Rudenko í samtali við Morgunblaðið en bók hans um ævi Volodimírs Selenskís, forseta Úlraínu, er komin út hjá Útgáfunni í íslenskri þýðingu Urðar Snædal.

Rudensko segir eldri kynslóð stjórnmálamanna hafa verið fulla efasemda í garð Selenskís þegar hann var kjörinn forseti enda vissu menn ekki hvar þeir höfðu hann. „Hann var nýliði á hinu mikla taflborði úkraínskra stjórnmála. Peð sem breyttist í kóng. Embættismannakerfið byrjaði að vonum um leið að verja sína hagsmuni og laga sig að nýja teyminu. Mér er minnisstætt að daginn sem Selenskí var settur í embætti forseta gerðu fulltrúar gamla stjórnmálakerfisins grímulaust grín að honum. Það var til einskis, eins og við þekkjum.“

– Hversu stóran þátt á Selenskí í seiglu og baráttugleði þjóðar þinnar í stríðinu?

„Hann er orðinn verðugur leiðtogi þjóðar sem berst fyrir frelsi sínu og sjálfstæði. Ég á ekki von á öðru en að sagnfræðingar framtíðarinnar eigi eftir að fara fögrum orðum um hlutverk hans í stríðinu.“ 

 – Hvernig sérðu stríðið þróast á komandi vikum og mánuðum?

„Erfiður vetur bíður okkar. Ljósin eru slökkt, enginn hiti, undir sprengjuárásum. En ég trúi á sigur okkar. Þá trú tuga milljóna Úkraínumanna verður erfitt að berja niður. Ekkert afl, ekkert vopn, getur drepið anda okkar og þrá til að byggja upp frjálst og velmegandi land.“

Serhii Rudenko.
Serhii Rudenko. Ljósmynd/Olena Cherninka


Veltur á trausti fólksins

Velta má fyrir sér hvort framganga Selenskís í embætti á undanförnum mánuðum komi til með að verða óhefðbundnum stjórnmálamönnum innblástur. Mönnum sem annars væru jafnvel ekki að íhuga að gefa kost á sér til pólitískra starfa. Rudenko hefur svo sem ekki sterka skoðun á því. „Forsetar eru þjóðkjörnir. Þegar fólk, hvort sem það er hér í Úkraínu eða annars staðar í heiminum, segir rangan mann hafa orðið fyrir valinu þá svara ég: Áfrýið til fólksins. Treysti fólkið óhefðbundnum stjórnmálamönnum, þá er það bara þannig.“

Spurður um framtíð Selenskís og úkraínsku þjóðarinnar svarar Rudenko: „Eftir sigurinn á Rússum tekur við áratugur enduruppbyggingar í ríkinu. Von mín er sú að Selenskí, og aðrir úkraínskir stjórnmálamenn, hafi visku til að haga sér með réttum hætti eftir sigurinn. Ég á við að verja lýðræðið, vinna bug á spillingu og byggja upp nýja Úkraínu. Bregðist þeir skyldum sínum þá munum við kjósa nýjan forseta. Því, eins og ég segi, þá höfum við barist og erum að berjast fyrir frelsi okkar og sjálfstæði.“

Í beinni meðan sprengjum rigndi

Tal okkar berst að lokum að persónulegum högum Rudenkos. Hann bjó í Kænugarði en þegar stríðið braust út flutti hann ásamt sjónvarpsstöðinni sem hann vinnur fyrir til Lviv í vesturhluta landsins. Þar sem stöðin var til húsa í höfuðborginni er núna sprengjuskýli. „Ég hef búið á hótelum í níu mánuði en eldflaugar Rússa ber einnig niður í Lviv; slökkt er á rafmagni og enginn hiti. Við förum stundum í loftið úr sprengjuskýli. Ég var til dæmis í beinni útsendingu á mánudaginn var þegar Rússar sendu 100 eldflaugar á Úkraínu. Það var eftirminnilegt, verð ég að segja. En ég trúi á sigur okkar og mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að leggja baráttunni lið.“

Lokaorðin í seinustu setningunni féllu niður í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Beðist er velvirðingar á því.  

Nánar er rætt við Serhii Rudenko í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert