Skellti hurðinni klukkan 19:40

Attonaty gramdist mjög að komast ekki í frí til Taílands …
Attonaty gramdist mjög að komast ekki í frí til Taílands í heimsfaraldrinum og ákvað í staðinn að hefja sína eigin vegferð um heiminn án þess að taka með sér svo mikið sem krónu með gati. Ljósmynd/Aðsend

Árið 1872 kom skáldsaga hins franska Jules Verne, Umhverfis jörðina á 80 dögum, út og sagði af ævintýrum sérviturs Englendings, auðkýfingsins Phileas Fogg, sem veðjaði við klúbbfélaga sína að hann gæti ferðast umhverfis jörðina á 80 dögum í félagi við hinn franska aðstoðarmann sinn Passepartout.

Varla þætti það tiltökumál nú, 150 árum eftir að saga Verne birtist, að komast kringum jörðina á slíkum óratíma, enda öldin önnur. Frakkar halda þó áfram að finna upp áskoranir á þessum vettvangi og að þessu sinni er það Charles Attonaty sem tekist hefur á hendur það verðuga verkefni að fara peningalaus umhverfis jörðina.

„Ég hóf heimsferðalag mitt án peninga árið 2020,“ segir Attonaty í samtali við mbl.is en hann er einmitt staddur á Íslandi um þessar mundir. Í fyrsta áfanga ferðar hans lá leið hans um Frakkland, Mónakó, Ítalíu, Króatíu, Ungverjaland, Rúmeníu, Búlgaríu og Tyrkland. „Svo fór ég aftur til Frakklands, allt mitt líf er í Normandí, tíminn hljóp frá mér,“ segir Frakkinn.

Kvaddi þægindalífið

Hann hóf því næst annan áfanga ferðalagsins. Frá Frakklandi lá leið hans til Belgíu og svo áfram um Holland, Þýskaland, Danmörku, Þýskaland aftur og Lúxemborg.

„Við lok þess áfanga fann ég hve dásamleg og mögnuð tímabil ég upplifði,“ segir Attonaty frá. „Ég ákvað því að stíga skrefið og taka áhættu. Ég ákvað að kveðja þægindalífið, fjölskylduna, vinina, starfið og íbúðina, allt,“ heldur hann áfram, en tekur þó fram að téður aðskilnaður sé auðvitað ekki til frambúðar. „Fram undan var þriðji áfangi, ég ferðast einn, alltaf peningalaus, aldrei með ferðaáætlun og engin tímamörk.“

Þar með var teningunum sannarlega kastað eins og Júlíus Sesar komst svo fjálglega að orði er hann fór yfir Rúbíkófljót árið 49 fyrir Krist. Frá Frakklandi hélt Attonaty til Belgíu, Þýskalands, Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs að vetrarlagi. „Kuldinn var stundum 32 gráður í mínus,“ segir hann.

„Þótt þú langförull legðir sérhvert land undir fót,“ orti Klettafjallaskáldið. …
„Þótt þú langförull legðir sérhvert land undir fót,“ orti Klettafjallaskáldið. Attonaty þrammar um hvíta snjóeyðimörk við aftanskæru. Ljósmynd/Aðsend

Er það bara eins og að drekka vatn að leggja heiminn að fótum sér peningalaus, treysta sífellt á að fá far og gefins mat?

„Ég útskýri hvað ég er að gera,“ svarar hann. „Ég var til dæmis í Calais í Norður-Frakklandi og sagði starfsfólki skipaferjuútgerðar af ætlunarverki mínu og þar var sagt: „Þetta er geggjað sem þú ert að gera, við ætlum að bjóða þér far til Englands,“ og þannig varð úr að fjórði áfanginn minn varð England, Wales, Skotland og Norður-Írland,“ segir Attonaty frá og bætir við sögu af þarlendum.

Íslandsför í boði Norður-Íra

„Fjölskylda á Norður-Írlandi gaf mér snemmbúna jólagjöf, flugmiða til Íslands, og þannig er ég hingað kominn núna,“ segir Attonaty sem meðal annars hefur dvalið hjá gestrisnu fólki á Norðurlandi.

Hann kveður hvern dag á ferðalaginu ævintýri, hann viti aldrei hverja hann hittir næst, hvar hann hallar höfði sínu eða hvort hann borði yfir höfuð. „En þetta er svo mikið ævintýri!“ segir hann sem er ábyggilega rétt, að minnsta kosti frá sjónarhóli fólks sem gerir ekki endilega kröfu um að fríið fari fram á fimm stjörnu hótelum með bestu veitingastaði handan hornsins.

„Og ég get líka sagt þér frá því að þetta brjálæði var ekkert sem ég lagði á ráðin um fyrir fram,“ játar Fransmaðurinn, „þetta byrjaði allt árið 2020. Þá var ég á leið til Taílands í frí og þá meina ég svona venjulegt frí með peningum. En vegna heimsfaraldursins varð ekkert af því, fluginu mínu var aflýst. Ég var hrikalega svekktur og einn daginn svall mér bara móður og ég ákvað að leggja land undir fót,“ heldur hann áfram, ekki eini maðurinn í heiminum sem sat uppi með ónýt ferðaplön í Covid-gleðinni miklu.

Sagan af sænsku hjónunum Kristinu og Sverker, sem buðu Frakkanum …
Sagan af sænsku hjónunum Kristinu og Sverker, sem buðu Frakkanum jóladvöl er hin merkilegasta. Fimm hundruð kílómetrum norðar og tveimur dögum síðar stöðvaði kona nokkur bíl sinn fyrir honum og var þar komin dóttir Sverkers. Ljósmynd/Aðsend

„Ég henti einhverju drasli í bakpoka og skellti hurðinni á slaginu 19:40, þetta var 27. júlí 2020. Foreldrar mínir vissu ekki einu sinni að ég væri horfinn á braut en mér leið eins og ég hefði endurfæðst á þessari mínútu,“ segir Normanninn.

Göngu-Hrólfur hinn nýi

Ferðalagið krefst að hans sögn mikillar göngu og á kannski vel við þar sem víkingahöfðinginn Rollo, sem nefndur var Göngu-Hrólfur í íslenskum heimildum og Bólu-Hjálmar orti Göngu-Hrólfs rímur sínar um, lagði einmitt undir sig það svæði Frakklands er síðar varð Normandí.

„Ég geng fimm til tíu tíma á dag,“ segir Frakkinn sem enda er grannvaxinn og spengilegur svo sem sjá má af myndum hér. Hann „húkki“ sér þó líka far og hafi haft heppnina með sér á ótrúlegustu farartækjum. „Ég hef fengið far með þyrlu, skriðdreka, hundasleða og síðasta gufuskipi heims, það er magnað,“ segir hann.

Tjaldið er helsti náttstaður Attonaty sem þar með kveðst tengjast náttúrunni órofa böndum. Oft bjóði fólk honum þó gistingu á heimilum sínum eða hreinlega bjóði honum hótelgistingu.

„Það sem vakir fyrir mér er að hefja erfiðleikana og óþægindin á æðra stig. Því erfiðari sem förin gerist, þeim mun meira gefandi. Þessi vegferð kennir mér að gleðjast yfir litlu hlutunum í lífinu hvort sem þar er um að ræða heitan tebolla, hlýtt bros eða hlýjan bíl,“ segir förumaðurinn franski.

Hugsaði með sér að þetta væru endalokin

Vegabréf og jákvæð orka séu hans æðstu sakramenti á veginum, ekki greiðslukort og tenging við lýðnetið. „Ég hef mest verið matarlaus í tvo daga og einn og hálfan án drykkjar. Í Tyrklandi var ég í tvígang við dauðans dyr, einu sinni í Svíþjóð og einu sinni í Finnlandi líka, en ég er á lífi, ég er að rækta tilfinningalíkama minn án þess að leggja endilega rækt við áþreifanlega líkamann og það heillar mig,“ segir hann af svaðilförum sínum.

Hér gæti Frakkinn hreinlega verið staddur í öðrum heimi en …
Hér gæti Frakkinn hreinlega verið staddur í öðrum heimi en hafa þó öll ævintýri hans átt sér stað hér á jörð, að minnsta kosti sem komið er. Ljósmynd/Aðsend

Í Lapplandi fékk hann að reyna 32 stiga frost á eigin skinni og lýsir staðháttum þar sem „hvítri eyðimörk“. „Þeir hafa engar borgir þar heldur þorp og milli tveggja þorpa geta verið hundrað kílómetrar. Þarna var ég kominn að þeim mörkum sem svefnpokinn minn náði að halda á mér hita og ég hugsaði með mér að þetta væru endalokin,“ segir Attonaty.

Hann gat ekki kveikt eld en einangrunarvesti hafi að lokum skilið milli feigs og ófeigs. „Um morguninn var mitt fyrsta ætlunarverk að finna einhverja slóð en í Finnlandi gat ég gengið í tvo daga án þess að sjá nokkra lifandi manneskju. Ég rakst þó á Norðmann sem var akandi. „Ertu óður? Veistu hve langt er til næsta byggða bóls?“ sagði hann við mig,“ segir Frakkinn frá.

Reyndist vert í Nordkapp

Svaraði hann því enda til að um það hefði hann enga hugmynd og vildi heldur ekki vita það. Norðmaðurinn hafi sýnt honum þá gestrisni að bjóða honum far auk þess að bjóða honum á veitingastað og gefa honum ýmsan búnað. Þar reyndist þá vera á ferð eigandi veitingahúss á Nordkapp í Noregi, nyrsta landfasta punkti Evrópu. „Þessi náungi bjargaði lífi mínu,“ segir Frakkinn.

„Þessi vegferð kennir mér að gleðjast yfir litlu hlutunum í …
„Þessi vegferð kennir mér að gleðjast yfir litlu hlutunum í lífinu hvort sem þar er um að ræða heitan tebolla, hlýtt bros eða hlýjan bíl.“ Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef lært svo margt, ég kunni ekki einu sinni að tjalda þegar ég lagði af stað. Sama er hvernig fer, ég get aldrei tapað, annaðhvort sigra ég eða dreg lærdóm,“ heldur hann áfram og kveður tengsl fólks með ólíkindum. Þannig hafi sænsk hjón, Kristina og Sverker, boðið honum að vera hjá sér um jól. Þau kvöddust svo með virktum og Attonaty hélt för sinni áfram.

„Þegar ég er kominn 500 kílómetrum norðar tveimur dögum síðar stoppar ökumaður fyrir mér og þar reyndist þá komin Karin, dóttir Sverkers. Hverjar eru líkurnar á þessu spyr ég bara. Hún þekkti mig af því að pabbi hennar hafði sent henni mynd af mér og frásögn af jólaheimsókninni. Hefði ég verið 10 sekúndum lengur að koma mér af stað þennan daginn eða hún ekið aðeins greiðar hefðum við aldrei hist!“

Skrifar bók á símann

Svipaðar uppákomur skipti tugum á ferðalagi hans. Hann beiðist einskis en hljóti allt. Í því felist eins konar titringur eða orka. „Ég kalla hana „samstillinguna“,“ segir hann. „Besta áætlunin er engin áætlun. Ég hef – og það er besta áætlunin.“

Nú um jólin ætli hann sér þó að eiga samfundi með fjölskyldu sinni úr því hann hafi verið í Skandinavíu síðustu jól. „Ég þarf líka að skipta um útbúnað. Það verður gott að hitta fjölskylduna, ég er að skrifa bók og er búinn að skrifa hana alla á símann minn. Ég þarf að færa þau skrif yfir í tölvuna mína heima,“ segir Charles Attonaty að lokum, annar Göngu-Hrólfurinn af Normandí sem sagan færir okkur úr ótæmandi brunni sínum.

Hér fyrir neðan eru tenglar á Tiktok-, Instagram- og Facebook-svæði Frakkans víðförla fyrir þá sem áhugasamir eru um félaus ferðalög umhverfis jörðina – þó alls ekki á 80 dögum.

Tiktok

Instagram

Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert