Autt blað hefur orðið að tákni mótmælanna í Kína gegn ströngum sóttvarnareglum yfirvalda, sem brutust út í kjölfar eldsvoða í borginni Urumqi þar sem tíu manns fórust. Takmörkunum stjórnvalda vegna kórónuveirunnar hefur verið kennt um hve illa fór. BBC greinir frá.
Milljónir Kínverja hafa búið við útgöngubann, takmarkanir á ferðafrelsi og þurft að gera grein fyrir heilsufari sínu í tæplega þrjú ár. Lítið hefur verið slakað á takmörkunum þrátt fyrir mjög fá smit í samfélaginu.
Íbúar landsins eru orðnir langþreyttir á ástandinu en steininn tók úr við eldsvoðann og brutust mótmæli út víða um Kína. Einhverjar tilslakanir hafa þó orðið eftir að mótmælin hófust.
Mótmælendur sjást margir hverjir halda auðu hvítu blaði á lofti, en gjörningurinn á rætur sínar að rekja til mótmæla í Hong Kong árið 2020 þar sem nýjum ströngum lögum um þjóðaröryggi var mótmælt. Þá höfðu yfirvöld bannað slagorð og frasa sem notaðir höfðu verið í fjöldamótmælum.
Autt blað er þó ekki aðeins talið vera tákn fyrir þöggunina heldur líka til að ögra yfirvöldum, því erfiðara er að handtaka fólk fyrir að segja ekki neitt.
Mótmælendur á götum í Peking hafa meðal annars sagt að blaðið tákni allt það sem þeir vilja segja en mega ekki. En líka vísun í takmarkanir sem Kínverjar búa við í tengslum við leitarvélar á netinu og samfélagsmiðla.