Blaðamaður BBC handtekinn og laminn

Viðskiptaráðherra Bretlands, Grant Shapps, segir aðgerðir kínversku lögreglunnar „óásættanlegar“ eftir að breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá því að einn af blaðamönnum þess hafi verið handtekinn og laminn er hann var að störfum í gær vegna mótmæla gegn Covid-takmörkunum í borginni Sjanghæ.

Að minnsta kosti þrír voru handteknir í borginni í morgun. 

„Hvað sem gengur á þá er frelsi blaðamanna heilagt,“ sagði Shapps í útvarpsviðtali.

Mörg hundruð manns flykktust út á götur stærstu borga Kína í gær vegna strangra takmarkana stjórnvalda til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

„BBC hefur miklar áhyggjur af meðferðinni sem blaðamaðurinn okkar Ed Lawrence fékk, en hann var handtekinn og handjárnaður þegar hann fjallaði um mótmælin í Sjanghæ,“ sagði stofnunin í yfirlýsingu.

Lawrence, sem starfar sem blaðamaður í Kína, var í haldi í þó nokkrar klukkustundir. Á þeim tíma var hann laminn og sparkað var í hann af lögreglunni, að sögn BBC. Hann var síðar látinn laus.

Maður handtekinn í mótmælum í Sjanghæ í gærkvöldi.
Maður handtekinn í mótmælum í Sjanghæ í gærkvöldi. AFP/Hector Retama.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert