Þekkt írönsk leikkona, Hengameh Ghaziani, hefur verið látin laus úr haldi lögreglu gegn tryggingu, samkvæmt írönskum fjölmiðlum. Hún var handtekin fyrir rúmri viku fyrir styðja opinberlega mótmælin sem geisað hafa í landinu síðustu tvo mánuði.
Áður hafði tveimur þekktum einstaklingum, sem sýndu samstöðu, einnig verið sleppt úr haldi; fyrrverandi knattspyrnumanninum Voria Ghafouri og aðgerðasinnanum Hussein Ronaghi. Þeim var líka sleppt gegn tryggingu.
Yfirvöld í Íran greindu frá því þann 20. nóvember síðastliðinn að Ghaziani hefði verið tekin til yfirheyrslu, ásamt sjö öðrum nafntoguðum einstaklingum og stjórnmálamönnum, vegna ummæla sem fólkið hefði látið falla í tengslum við mótmælin sem hófust eftir að hin 22 ára Mahsa Amini lést í haldi í lögreglu í september. Hún hafði verið handtekin af írönsku siðgæðislögreglunni fyrir að brjóta strangar reglur um klæðaburð kvenna.
Áður en Ghaziani var handtekin hafði hún greint frá því að yfirvöld væru á eftir henni, en í kjölfarið birti hún myndband af sér á Instagram þar sem hún fjarlægði höfuðslæðu sem konum í Íran ber skylda að bera.
Fleiri hafa gert slíkt hið sama, en nú hefur verið birt myndband á samfélagsmiðlum sem sýnir hóp íranskra leikara, bæði konur og karla, framkvæma þögul mótmæli þar sem þau taka niður höfuðslæður, til að sýna samstöðu.
Í myndbandinu sést leikkonann og leikstýran Soheila Golestani ganga svartklædd inn í mynd, snúa sér við og sýna að hún ber ekki slæðu. Níu konur til viðbótar gera slíkt hið sama og fimm karlmenn.
Golestani birti sjálf myndbandið á Instagram-síðu sinni í gær. „Sýningunni er lokið og sannleikurinn hefur verið afhjúpaður,“ skrifaði hún. „Raunverulegu hetjurnar okkar er allt óþekkta fólkið.“
Íranskar öryggissveitir hafa að minnsta kosti drepið 326 manns í aðgerðum sínum gegn mótmælendum á síðustu mánuðum, samkvæmt Samtökunum Írönsk mannréttindi (e. Iran Human Rights (IHR)), og þúsundir hafa verið handtekin.