Fjölskyldur leikmanna karlalandsliðs Íran í knattspyrnu hafa sætt hótunum í kjölfar þess að liðið neitaði að syngja með þjóðsöng landsins fyrir fyrsta leikinn á heimsmeistaramótinu í Katar.
Liðið á leik gegn liði Bandaríkjanna í kvöld klukkan 19, þar sem sæti í 16-liða úrslitum er undir.
Samkvæmt heimildarmanni CNN voru leikmennirnir kallaðir á fund með íranska byltingarverðinum (IRGC) eftir leikinn gegn Englandi þar sem þeir voru upplýstir um að fjölskyldur þeirra væru í hættu ef leikmennirnir hegðuðu sér ekki fyrir leik liðsins á móti Bandaríkjamönnum.
Ef leikmenn myndu mótmæla með einhverjum hætti eða neita að syngja þjóðsönginn, gætu fjölskyldur þeirra átt í hættu á að enda í fangelsi eða að sæta pyntingum.
Heimildarmaðurinn, sem hefur fylgst grannt með öryggissveitum Íran, segir tugi fulltrúa frá IRGC viðstadda mótið í Katar en hlutverk þeirra sé að fylgjast með leikmönnum liðsins.
Þá segir hann fulltrúa IRGC hafa fundað tvisvar með Carlos Queiroz, þjálfara liðsins, en ekki liggur fyrir hvað þar var rætt.
„Fyrir síðasta leikinn gegn Wales sendu yfirvöld hundruð leikara til að leika hlutverk áhorfenda til þess að búa til falska ímynd um stuðning meðal áhorfenda. Fyrir næsta leik gegn Bandaríkjunum hafa yfirvöld ákveðið að senda mun fleiri leikara, það má búast við þúsundum,“ sagði heimildarmaðurinn.
Tveir fyrrverandi landsliðsmenn Íran í knattspyrnu voru látnir lausir úr varðhaldi í Teheran í dag, nokkrum tímum fyrir mikilvægan leik liðsins.