Pólverjar vonast til þess að fá greiddar stríðsbætur frá Þjóðverjum vegna innrásar Þjóðverja í Pólland og þess hildarleiks sem á eftir fylgdi í síðari heimsstyrjöldinni, eins og greint var frá síðsumars.
Arkadiusz Mularczyk aðstoðarutanríkisráðherra fer fyrir þeirri vinnu hjá Pólverjum og ræddi mbl.is við hann á dögunum.
„Já, með þessu var mér falið stórt hlutverk í pólskum stjórnmálum. Við létum gera skýrslu ásamt fjölda háskólakennara og vísindamanna úr ýmsum greinum. Þar reyndum við að áætla hversu mikið tap Pólland mátti þola vegna innrásar Þýskalands í síðari heimsstyrjöldinni en skýrsluna höfum við látið þýða á nokkur tungumál.
Í byrjun október undirrituðum við bréf sem sent var þýska kanslaranum og þar eru kröfur okkar um skaðabætur settar fram. Einnig sendum við bréf til ýmissa bandamanna okkar, innan og utan Evrópusambandsins. Við lítum á þetta sem siðferðislegt, efnahagslegt, pólitískt og diplómatískt vandamál á milli Póllands og Þýskalands,“ segir Mularczyk en mbl.is ræddi við hann þegar hann var í stuttri heimsókn á Íslandi.
„Við viljum setja málið þannig fram að ríki, sem gengur fram eins og Þjóðverjar gerðu í síðari heimsstyrjöldinni, greiði skaðabætur til þeirra sem urðu fyrir barðinu á þeim. Póllandi var skipt á milli Þjóðverja og Rússa og áhrifanna gætir enn þann dag í dag. Við finnum enn fyrir sögunni og stríðsglæpunum sem framdir voru í Póllandi. Nú vill þannig til að Ísland er fyrsta landið sem ég heimsæki eftir að við settum kröfur okkar gagnvart Þjóðverjum skriflega fram og því ætla ég að afhenda íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem afstaða okkar er útskýrð.“
„Segja má að umræða um slík mál eigi vel við í dag þegar við horfum til ástandsins í Úkraínu. Þar eru framdir stríðsglæpir og milljónir manna hafa lagt á flótta frá heimilum sínum vegna innrásar nágrannaríkisins. Líklega hafa um átta milljónir manna farið yfir landamærin til Póllands frá því stríðið hófst og flóttamenn frá Úkraínu sem dvelja í Póllandi eru nú um 3,5 milljónir. Við styðjum flóttafólkið af krafti og þau hafa fengið atvinnuleyfi í Póllandi auk ýmissa réttinda í velferðarkerfinu.
Mér þykir fróðlegt að bera saman það sem nú á sér stað í Evrópu og atburðina í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir hana fór Potsdam-ráðstefnan fram og í framhaldinu þurfti Pólland að reiða sig á stuðning Sovétríkjanna. Á hinn bóginn reiddi Vestur-Þýskaland sig á Bandaríkin og naut góðs af Marshall-aðstoðinni. Við vorum á meðal þeirra sem unnum stríðið en töpuðum samt því við urðum leppríki Sovétríkjanna og varla hægt að tala um fullvalda ríki á þeim tíma,“ segir Mularczyk.
Hann nefnir að Pólverjar hafi ekki verið í stöðu til að fara fram á skaðabætur af hendi Þjóðverja þegar þeir voru undir hælnum á Sovétmönnum. Þegar kommúnisminn hrundi í austurhluta Evrópu varð Pólland lýðræðisríki og voru haldnar frjálsar kosningar árið 1990.
„Eftir stríðið gerðist ekkert varðandi þetta jafnvel þótt Pólverjar hefðu ekki einu sinni fengið neitt af því til baka sem Þjóðverjarnir rændu okkur. Upp úr 1989 voru ýmis önnur stór mál í forgangi, eins og innganga í NATO og ESB. Nú tel ég hins vegar að tími sé kominn til að ræða af alvöru um mögulegar skaðabætur frá Þjóðverjum. Helsti gallinn er hins vegar að yngri kynslóðir virðast ekki þekkja vel til atburðanna í Póllandi í síðari heimsstyrjöldinni en sögunni þarf að halda lifandi.“
Pólland er í túnfæti stríðsins sem nú geisar í Úkraínu en Mularczyk segir að átökin séu áhyggjuefni allra í Evrópu og allra á Vesturlöndum.
„Sameinaðar lýðræðisþjóðir sem aðhyllast vestræn gildi þurfa að vinna stríðið í Úkraínu. Útkoman skiptir ekki einungis máli fyrir Pólland, eða Eystrasaltsríkin, heldur fyrir alla Evrópu. Fyrir skömmu síðan varð mjög alvarlegt atvik innan pólsku landamæranna eins og fram hefur komið. Þar var um slys að ræða en ábyrgðin er Rússa því þeir hófu stríðið með innrás og ráðast á ýmsa innviði í Úkraínu,“ segir Arkadiusz Mularczyk.