Alex Jones sækir um gjaldþrotaskipti

Stofnandi InfoWars Alex Jones talar hér við fjölmiðla eftir réttarhöld …
Stofnandi InfoWars Alex Jones talar hér við fjölmiðla eftir réttarhöld yfir honum í Connecticut í haust. AFP/Joe Buglewicz

Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones sótti um gjaldþrotaskipti á sínum persónulegu eigum í heimaríki sínu Texas í dag. Áður höfðu InfoWars lýst yfir gjaldþroti í aprílmánuði og Free Speech Systems lýst yfir gjaldþroti í júlí síðastliðnum en bæði fyrirtækin voru í eigu Jones.

Jones var dæmdur til að greiða fjölskyldum fórnarlamba Sandy Hook skotárásanna alls 1,5 milljarða dala. Hann hafði verið dæmdur af kviðdómi til að greiða fjölskyldunum 965 milljónir dala í október. Þann 11. nóvember sl. ákvað dómari málsins að þyngja refsinguna um 473 milljónir dala. Í öðru dómsmáli gegn Jones, sem fór fram í Texas, var Jones að auki dæmdur til að greiða 50 milljónir dala til foreldra sem misstu sex ára son sinn í skotárásinni.

Jones hafði árum saman haldið því fram á vefsíðu sinni InfoWars og í vinsælum útvarpsþætti sínum að skotárásin í Sandy Hook hefði verið sett á svið og foreldrarnir væru ráðnir leikarar. Hann var einnig sakaður um að hafa grætt stórfé á sölu varnings vegna lyga sinna um Sandy Hook skotárásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert