Að minnsta kosti tveir eru látnir í Saporisjía-héraði í Úkraínu eftir umfangsmikla eldflaugaárás Rússa sem gerð var fyrr í dag.
Rafmagns- og vatnslaust er í fjölda borga landsins eftir að eldflaugum tók að rigna, en fullyrt var fyrr í dag að þær gætu verið fleiri en hundrað talsins.
Loftvarnaflautur hafa ómað um alla Úkraínu undanfarnar klukkustundir eftir að ljóst varð að Rússar hefðu hafið enn eina árásina.
Embættismenn í höfuðborginni Kænugarði segja loftvarnakerfi hafa hrundið árásinni að einhverju leyti.
Ekki er enn ljóst hversu mikið mannfall og hversu víðtækar afleiðingar árásin kemur til með að hafa í för með sér.