Kona, sem nú er um fertugt, bar vitni í manndrápsmáli Birgitte Tengs í Héraðsdómi Haugalands og Sunnhörðalands í Noregi í dag, fimmtudag, en eins og mbl.is hefur fjallað um er nú réttað yfir 52 ára gömlum manni, Johny Vassbakk, sem grunur féll á í fyrrahaust þegar kaldmálahópur rannsóknarlögreglunnar Kripos tók að rýna í þetta 27 ára gamla óupplýsta mál á ný.
Vitnið, sem var 15 ára gamalt á þeim tíma sem um ræðir, hafði átt í samskiptum við ákærða og lýsti þeim fyrir héraðsdómi eftir að hafa rifjað ýmislegt upp með hjálp dagbóka sinna frá því um miðjan tíunda áratuginn.
Lýsti vitnið því að ákærði hefði sóst eftir að fá að sleikja fætur vitnisins og fengið að gera það gegn greiðslu 200 norskra króna. „Þetta var ekkert sérstaklega spennandi upplifun. Ég fékk 200 krónur og tók við þeim. Ég var ung og þurfti á peningunum að halda,“ sagði vitnið en Stian Kristensen, verjandi ákærða, þráspurði vitnið hvort það væri að skálda upp samskiptin.
Einnig hafi ákærði oft farið í bíltúr með vitninu og vinkonum þess enda eldri og kominn með ökuréttindi á þessum tíma. Sá böggull hafi hins vegar fylgt skammrifi að ákærði hafi átt það til að vera ber að neðan í þessum ökuferðum en einnig hafi hann, að sögn vitnisins, átt það til að klæðast kvenmannsfötum.
„Honum þótti spennandi að bera sig,“ sagði vitnið. Ákærði hefði enn fremur oft keypt föt handa vitninu auk þess sem hann var gjafmildur á notuð föt. Sagði vitnið að samskipti þeirra hefðu verið saklaus í fyrstu en síðar hafi kynferðislegur undirtónn skotið upp kollinum og ágerst.
„Enginn hafði heyrt talað um „grooming“ [aðferð níðinga til að ávinna sér traust barna] á þessum tíma en núna þegar ég lít til baka átta ég mig á því að það var það sem hann var að reyna,“ sagði vitnið og bætti því við að faðir þess hefði litið samband þeirra ákærða óhýru auga og hefðu þau því fljótlega farið að halda fundum sínum leyndum.
Þau hafi gjarnan haldið til í húsi sem vitnið sagðist telja að tilheyrði foreldrum ákærða auk þess sem þau hafi baðað sig í sjónum þegar þannig viðraði. Er fram liðu stundir hóf vitnið að nota fíkniefni og flutti skömmu eftir það frá Haugalandi, þá 16 ára.
Kristensen verjandi spurði þá fjölda spurninga og gerði sitt til að hrekja framburð vitnisins eftir að Unni Byberg Malmin héraðssaksóknari hafði lagt fram sínar spurningar. Benti verjandinn á að ekki hefði verið búið að byggja baðhúsið sem vitnið kvað þau ákærðu hafa notað til fataskipta við sjóböðin. Það hefði verið fullklárað árið 2000 og vitnið þá orðið eldra en 16 ára.
Eins benti verjandinn á að hluta þess tímabils, sem vitnið sagði ákærða hafa farið í bíltúra með þeim vinkonum, hefði ákærði ekki haft ökuréttindi. „Hann keyrði nú samt,“ svaraði vitnið því til.
Þá taldi Kristensen staðsetningu baðhússins, eins og vitnið lýsti henni, ekki standast miðað við heimili Tengs heitinnar. Vitnið kvað húsið hafa verið örfáum húsum frá heimili Tengs en Kristensen sagði að eina baðhúsið sem kæmi til greina væri í margra kílómetra fjarlægð frá því sem þá var heimili Tengs.
„Ertu að skálda þetta?“ spurði Kristensen þá, ekki í fyrsta skiptið. „Ég græði ekkert á því,“ svaraði vitnið um hæl.
Sjálfur kvaðst ákærði muna takmarkað eftir sambandi þeirra vitnisins. Hann myndi aðeins eftir einum fundi þeirra í Haugesund. Það sagði vitnið engan veginn standast. Annað vitni, úr fyrrgreindum vinkvennahópi, mundi einnig eftir ökuferðunum, ákærði hefði átt ljósgræna bifreið.
Sama vitni sagði samskiptin við ákærða hafa verið að mestu ágæt, en hann hefði þó verið dálítið undarlegur á köflum. Til dæmis hefði hann ítrekað gefið vitninu nærklæði þrátt fyrir að á táningsaldri væri en hann sjálfur á þrítugsaldri. „Okkur fannst þetta skemmtilegt og dálítið sérstakt. Hann reyndi að vera okkur góður,“ sagði vitnið.
Ákærði viðurkenndi að hafa farið í bíltúra með síðara vitninu og vinkonum þess. Tímasetti hann einn bíltúrinn þannig við skýrslutöku að hann hefði hafist skömmu áður en Birgitte Tengs var myrt á Karmøy 6. maí 1995, miðað við áætlaðan dánartíma, og lokið skömmu eftir þann tímapunkt.
NRKIII (reyndi að kyrkja sálfræðinginn sinn árið 1990)