Öldungadeildarþingmaður yfirgefur demókrata

Kyrsten Sinema á blaðamannafundi í Washingtonborg.
Kyrsten Sinema á blaðamannafundi í Washingtonborg. AFP

Kyrsten Sinema, þingmaður Arizona í bandarísku öldungadeildinni, hefur tilkynnt að hún muni segja skilið við Demókrataflokkinn.

Þess í stað mun hún skrá sig sem óháðan öldungadeildarþingmann.

Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því demókratar tryggðu sér 51 manns meirihluta gegn 49 þingmönnum repúblikana.

Inni í þeirri tölu demókrata hafa þó til þessa talist tveir óháðir þingmenn, enda falla atkvæði þeirra oftar en ekki með stefnumálum flokksins.

Þrír óháðir

Með þessari ákvörðun Sinema verða því þrír óháðir þingmenn í öldungadeildinni, af hundrað samtals, og óvíst hvort að telja megi hana tilheyra meirihlutanum.

En jafnvel þó atkvæði í einstökum málum falli 50-50, þá sker varaforsetinn Kamala Harris úr um jafntefli.

„Ég hef skráð mig sem Arizona-óháðan. Ég veit að sumum gæti komið þetta örlítið á óvart, en í raun og veru þá tel ég að mikið vit sé í þessu,“ segir Sinema í samtali við fréttastofu CNN.

Hún kveðst aldrei hafa passað vel inn í neinn flokkskassa.

Býst ekki við breytingum

Í samtali við stjórnmálamiðilinn Politico segist hún þá ekki búast við því að uppbyggingin í öldungadeildinni breytist að neinu ráði.

„Ég ætla að halda áfram að mæta til vinnu, að vinna af hendi sama starf og ég geri alltaf. Ég ætla bara að mæta til vinnu sem óháður.“

Sinema hefur á yfirstandandi kjörtímabili sínu, sem hófst árið 2019, reynst demókrötum óþægur ljár í þúfu ásamt kollega sínum Joe Manchin, en á tíðum hefur reynst erfitt að afla þeirra fylgis við stefnumál flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert