Yfirvöld í Rússlandi sögðu í dag að samband þeirra við Bandaríkin væri enn í „krísu“ þrátt fyrir fangaskiptin á bandarísku körfuknattleikskonunni Brittany Griner fyrir Viktor Bút, alræmdan rússneskan vopnasala.
Bút afplánaði 25 ára dóm í Bandaríkjunum fyrir að hafa útvegað hryðjuverkasamtökum og uppreisnarhópum vopn.
„Það er sennilega rangt að draga ímyndaðar ályktanir að þetta gæti verið skref í áttina að því að komast yfir krísuna sem við erum í í tvíhliða samskiptum,“ sagði Dmítrí Peskov, talsmaður yfirvalda í Kreml, við dagblaðið Isvestía.
Samband ríkjanna „er áfram í dapurlegu ástandi“, sagði Peskov og bætti við að yfirvöld í Bandaríkjunum hefðu leyft rússneskum ríkisborgara sem var í haldi Bandaríkjanna í 14 ár að snúa aftur til heimalands síns.
Griner var handtekinn á flugvellinum í Moskvu í febrúar á þessu ári eftir að rafrettuhylki með kannabisolíu fannst í farangri hennar. Í ágúst var hún svo dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi.