Með villidýr í farteskinu

Þessi krókódíll fannst í farangri Norðmanns á leið heim úr …
Þessi krókódíll fannst í farangri Norðmanns á leið heim úr fríi og dvelur nú í haldlagningargeymslu Umhverfisstofnunar Noregs. Ljósmynd/Umhverfisstofnun Noregs

Heil uppstoppuð villidýr eru engin nýlunda þegar tollverðir í Noregi fara gegnum farangur ferðalanga sem snúa heim eftir ferðalög til framandi landa og er nú svo komið að haldlagður varningur, sem brýtur í bága við samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu, fyllir heilt herbergi í Umhverfisstofnun Noregs.

Téður samningur heitir á frummálinu Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora, í daglegu tali CITES, gerður í Washington árið 1973 og öðlaðist gildi 1. júlí 1975. Aðildarríki CITES eru 154, Ísland er aðili frá 3. janúar 2000. Alls tekur samningurinn til um 39.000 dýra- og plöntutegunda og skiptist í A- og B-hluta þar sem A fjallar um tegundir sem þegar eru í útrýmingarhættu en B um tegundir sem eiga á hættu að verða það.

Aðgerðin Thunder 2022

Að sögn Jo Esten Hafsmo, ráðgjafa hjá stofnuninni, hefur hald verið lagt á 664 gripi, sem teljast brot gegn ákvæðum CITES-samningsins, síðastliðinn áratug og kennir þar ýmissa grasa, svo sem veiðibráðar, fæðubótarefna, fjaðra til fluguhnýtinga og sumir hafa jafnvel tekið með sér kaffi sem inniheldur afurðir af löngum listum CITES.

Heill hlébarði er meðal þeirra gripa sem norska tollgæslan hefur …
Heill hlébarði er meðal þeirra gripa sem norska tollgæslan hefur fundið og falla undir bann CITES-alþjóðasamningsins. Ljósmynd/Umhverfisstofnun Noregs

Tekur Hafsmo þó fram í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að það sem rekur á fjörur norskra tollvarða sé aðeins dropi í haf þeirra viðskipta sem eigi sér stað á alþjóðavettvangi með afurðir dýra og plantna sem CITES-samningnum sé ætlað að verja gegn útrýmingu. Verslun með þessar afurðir er að hans sögn fjórði stærsti ólöglegi inn- og útflutningsiðnaður heimsins á eftir fíkniefnum, smygli á fólki og ólöglegri vopnasölu.

Í október tóku norsk tollyfirvöld ásamt Umhverfisstofnun þátt í aðgerðinni Thunder 2022 með alþjóðalögreglunni Interpol, Alþjóðatollastofnuninni, tollgæslu, lögreglu og efnahagsbrotayfirvöldum 125 ríkja sem varð til þess að norskir eftirlitsaðilar fundu og stöðvuðu níu sendingar á leið til Noregs sem innihéldu meðal annars páfagauka, skriðdýr, slönguskinn og fílabein. Fannst varningurinn í póstsendingum, bifreiðum og í farangri á flugvöllum.

Jo Esten Hafsmo ráðgjafi segir það sem rekur á fjörur …
Jo Esten Hafsmo ráðgjafi segir það sem rekur á fjörur norskra tollvarða aðeins dropa í hafið þegar litið sé til heimsverslunar með dýr og plöntur í útrýmingarhættu. Ljósmynd/Umhverfisstofnun Noregs

Tollgæslan getur ekki skoðað allt

„Það er á ábyrgð hvers og eins að kynna sér þær reglur sem gilda um bönn sem gætu tengst vörunni,“ segir Elisabeth C. Nettum, ráðgjafi hjá norska tollstjóranum, við NRK, „þeir sem ekki fylgja þessum reglum geta átt yfir höfði sér sektir eða kærur.“

Hafsmo hjá Umhverfisstofnun segir kórónuveirufaraldurinn varla hafa dregið úr smygli afurða sem CITES fjalli um. „Stór áskorun í þessu er að netverslun hefur auðveldað þetta smygl til muna,“ segir hann og bendir á hve auðvelt sé að panta fæðubótarefni á lýðnetinu. „Við sjáum alveg hve mikið kemur með póstinum, það er mun meira en það sem fólk er að koma með heim frá útlöndum.“

Þessa hauskúpu úr birni reyndi einhver að taka með sér …
Þessa hauskúpu úr birni reyndi einhver að taka með sér heim og hafa sem stofustáss. Ljósmynd/Umhverfisstofnun Noregs

Hann kveður stofnunina sátta við vinnubrögð tollgæslunnar, þau dugi þó ekki alla leið. „Þótt þeir [tollurinn] hafi gott verklag getur tollgæslan ekki skoðað allt. Bögglapósturinn er sérstaklega erfiður, fólk getur gefið upp allt annað innihald en raunin er.“

Fæðubótarefni í tísku

Nettum hjá tollstjóra segir stöðugt eftirlit með vöruflæðinu og sífellt reki tollurinn sig á nýjar aðferðir Norðmanna við smygl. „Við finnum tegundir sem falla undir CITES. Þær koma ekki bara með póstinum heldur með vörusendingum í innflutningi og auðvitað í farangri fólks. Nú er mjög auðvelt að kaupa framandi vörur á netinu og þær koma hingað með pósti og frakt,“ segir hún og bætir því við að tískustraumar finnist í þessum kima sem öðrum. Nú þyki ýmis fæðubótar- og hressingarefni til dæmis mjög móðins.

Elisabeth C. Nettum, ráðgjafi hjá norska tollstjóranum, segir tollgæsluna sífellt …
Elisabeth C. Nettum, ráðgjafi hjá norska tollstjóranum, segir tollgæsluna sífellt reka sig á nýjar aðferðir smyglara. Ljósmynd/Norska tollstjóraembættið

„Sum þessara fæðubótarefna innihalda duft úr orkídeutegund sem er í útrýmingarhættu, dendrobium. Til að flytja þau inn til Noregs þarf að afla leyfis frá umhverfisráðuneytinu. Auk þess innihalda sum fæðubótarefnin lyf. Þá er bannað að flytja þau inn án tilskilinna leyfa. Þessar vörur eru keyptar á netinu og geta verið neytendum háskalegar,“ segir Nettum.

Nýlega gerði Umhverfisstofnun TikTok-myndskeið um haldlagðan varning og stóð þá ekki á fyrirspurnum TikTok-verja. Hvernig stendur á því að stofnunin geymir þessa gripi bara í herbergi, er það ekki einmitt það sem innflytjandinn hafði hugsað sér að gera?

Þessi hringur er úr fílabeini sem um árabil hefur verið …
Þessi hringur er úr fílabeini sem um árabil hefur verið eftirsótt vara um allan heim. Fílar eru hins vegar á lista CITES-samningsins. Ljósmynd/Umhverfisstofnun Noregs

Hafsmo segir það eiga sér sínar skýringar. „Við erum með verklagsreglur um förgun þess sem er haldlagt og lagerinn okkar minnkar stöðugt. Samkvæmt [CITES-] samningnum leyfist okkur að nota haldlagðan varning við kennslu. Við eigum í samstarfi við Dýragarðinn í Kristiansand og Avinor [rekstraraðila norskra flugvalla] í Kjevik sem hafa þessar vörur til sýnis sem dæmi um hvað óheimilt er að flytja inn,“ segir ráðgjafinn.

NRK

NRKII (aðgerðin Thunder 2022)

NRKIII (ekki bara plöntur og dýr)

NRKIV (falsaður varningur stór búgrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert