Búist er við því að Bandaríkin samþykki að senda háþróað loftvarnarkerfi til Úkraínu, en kerfið er talið það besta sem til er.
Yfirvöld í Úkraínu hafa kallað eftir aðstoð í baráttu landsins við flugskeyti Rússa sem rigna yfir Úkraínu í gríð og erg. New York Times greinir frá.
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna gæti samþykkt að senda að minnsta kosti eitt kerfi austur til Úkraínu í vikunni. Joe Biden Bandaríkjaforseti fer með lokavald yfir ákvörðuninni.
Hvíta húsið, Pentagon og utanríkisráðuneytið hafa neitað að svara spurningum fréttamanna um loftvarnarkerfið, en það væri eitt háþróaðasta vopn sem Bandaríkjamenn hefðu sent til Úkraínu.
Forsvarsmaður utanríkisráðuneytisins sagði í dag að Bandaríkin hafi sett það í forgang að senda loftvarnarkerfi til Úkraínu, til þess að geta varist betur sprengjuregni Rússa.