Verkföll halda áfram í Bretlandi

Búist er við að 20% af lestarsamgöngum falli niður vegna …
Búist er við að 20% af lestarsamgöngum falli niður vegna verkfalla næstu daga. AFP/Daniel Leal

Lestarstarfsmenn í Bretlandi hefja nýja lotu verkfalla í þessari viku en samkvæmt skipulagi munu þeir leggja niður störf í fjóra daga, í dag, á morgun, föstudag og laugardag.

Lestarfyrirtæki hafa biðlað til fólks að ferðast ekki nema í brýnustu nauðsyn en búist er við að einungis um 20% af lestarsamgöngum verði starfandi.

Almenningssamgöngur í Bretlandi eru enn í sárum eftir Covid-19 heimsfaraldurinn og hafa fyrirtæki því haldið að sér höndum varðandi launahækkanir.

Starfsmenn lestarfyrirtækja höfnuðu í gær nýjum kjarasamningi en Mike Lynch, framkvæmdastjóri verkalýðsfélags járnbrautarstarfsmanna, sagði tilboðið óásættenlegt. BBC greinir frá.

Undirbúa herinn

Verkföll hafa sett svip sinn á breskt atvinnulíf síðustu mánuði en 1,16 milljónir vinnudaga hafa alls fallið niður vegna verkfalla frá því í júní á þessu ári samkvæmt bresku hagstofunni. Slíkt hefur ekki sést frá því í apríl árið 1990. 

Bresk stjórn­völd greindu frá því í síðustu viku að unnið væri að því að búa her­inn und­ir að styðja við sjúkra­flutn­inga og landa­mæra­eft­ir­lit vegna fyr­ir­hugaðra verk­falla sem eiga að taka gildi í þess­um mánuði. 

Þá hefur Su­ella Bra­verm­an, inn­an­rík­is­ráðherra lands­ins, hvatt lands­menn til að halda sig heima um jólin út af mögulegu verkfalli tollvarða sem annast landamæraeftirlit. 

Hótelstjórar hafa áhyggjur

Verkföllin hafa margvíslegar afleiðingar og ógna m.a. jólavertíðinni í ferðaþjónustunni í Bretlandi en hótelstjórar og gistihúsaeigendur hafa lýst yfir áhyggjum vegna mikils fjölda afbókana yfir hátíðarnar. 

Fyrirtæki hafa m.a. aflýst ráðstefnum og fundum sem búið var að bóka en gestir óttast að þeir muni ekki komast á leiðarenda með almenningssamgöngum.

Sarah Czarnecki, varaformaður ferðaþjónustufélagsins í York, segir í samtali við BBC að afbókanirnar séu mikið áhyggjuefni þar sem komandi mánuðir eru yfirleitt afar rólegir í ferðaþjónustunni. Er jólavertíðin nauðsynleg til að hífa upp afkomu fyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert