Vilja að Danir fækki frídögum í þágu varnarmála

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmekur, sést hér fyrir miðri mynd. Henni …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmekur, sést hér fyrir miðri mynd. Henni á hægri hönd er Jakob Ellemann-Jensen, leiðtogi Venstre og nýr varnarmálaráðherra landsins, og henni á vinstri hönd er Lars Løkke Rasmussen, sem verður utanríkisráðherra. AFP

Ný ríkisstjórn Danmerkur, sem var kynnt í dag, hyggst fækka helgidögum um einn á næsta ári í því augnamiði að efla fjárframlög til varnarmála. Þetta er ein af fyrstu ákvörðunar nýrrar samsteypustjórnar miðhægri- og miðvinstriflokka, eða jafnaðarmanna, hægriflokksins Venstre og miðflokksins Moderaterne.

Eitt af markmiðum nýrrar ríkisstjórnar er að flýta því að ná markmiðum Atlantshafsbandalagsins (NATO) um að verja 2% af vergri landsframleiðslu landsins til varnarmála. Ríkisstjórnin hyggst ná því markmiðið þremur árum á undan áætlun. Varnarmálin hafa verið ofarlega á baugi í Danmörku frá því Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar.

Mette Frederiksen, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, sem flýtti kosningum í október sl. vegna harðar gagnrýni sem ríkisstjórn sætti vegna minkamálsins svokallaða, mun áfram leiða ríkisstjórnina.

Hún tilkynnti í dag að það stæði til að fella niður einn af ellefu helgidögum sem eru haldnir hátíðlegir í landinu til að styrkja hagkerfið. 

Líklegt þykir að kóngsbænadagurinn (d. Store Bededag) verði fyrir valinu, en hann er lendir ávallt á föstudegi fyrir fjórða sunndag eftir páska. Hann hefur verið helgidagur í Danmörku frá 1686. 

Ekki eru allir á eitt sáttir við þessar fyrirætlanir stjórnvalda, ekki síst talsmenn kirkjunnar, sem lýsa yfir miklum vonbrigðum. Þeir telja m.a. að þetta eigi eftir að setja fermingar í uppnám, því dagurinn hefur verið stór fermingardagur. Þeir minna enn fremur á mikilvægi þess að fólki komi saman, dragi úr hraða samfélagsins, biðja og íhuga. Það sé skammarlegt ef samfélagið telji það ekki lengur mikilvægt. 

Fyrirtækjaeigendur hafa einnig áhyggjur af breytingunni, þeirra á meðal er bakarinn Iver Hansen sem segir í samtali við TV SYD að Stóri bænadagurinn hafi ávallt verið stór dagur. Hann óttast að hann verði af um 30.000 dönskum krónum, sem samsvarar rúmum 600.000 kr., verði dagurinn afhelgaður. 

Frederiksen segir að það sé stríð í Evrópu og þess vegna verði Danir að efla varnir sínar. „Og það krefst þess að allir leggi örlítið meira á sig.“

Samkomulag um myndun nýrrar stjórnar náðist eftir að leiðtogar flokkanna sammæltust um að láta það vera að kalla eftir opinberri rannsókn á minkadrápinu. 

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og leiðtogi Moderaterne, verður næsti utanríkisráðherra landsins, og Jakob Ellemann-Jensen, leiðtogi Venstre, verður aðstoðarforsætisráðherra og varnarmálaráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert