Allt er í hers höndum í Norður-Noregi eftir fannfergi þar í kuldakasti sem Norðmenn hafa ekki farið varhluta af síðustu daga. Leik- og grunnskólar lokuðu dyrum sínum víða í dag og báðu nemendur sína að halda sig heima við en norska veðurstofan skrifar um jökulkaldar heimskautalægðir yfir landinu á vefsíðu sinni.
„Ég fékk áfall þegar ég opnaði dyrnar í morgun,“ segir Merete Lorentsen í Silsand í Senja í Troms-fylki við norska ríkisútvarpið NRK, „ég hef aldrei upplifað aðra eins snjókomu á svo stuttum tíma,“ heldur hún áfram en Lorentsen setti hljóða þegar hún opnaði útidyr sínar í morgun og við blasti fannfergi án hliðstæðu.
Stjórnendur Flesland-flugvallarins í Bergen sendu frá sér tilkynningu um að þeir gætu neyðst til að loka vellinum á hverri stundu, fjölda flugferða var aflýst þar þótt snjóruðningstæki væru sem mý á mykjuskán á flugbrautum vallarins.
„Við munum þurfa að loka eitthvað í dag, hve lengi það verður fer eftir því hve mikið snjóar,“ sagði rekstrarstjóri vallarins, Øyvind Skaar, við NRK en Björgvinjarbúar eru öllu vanari regni en snjókomu, hvergi í Noregi rignir sem þar í Hörðalandi en síðustu daga hefur úrkoman verið snjór.
Gunnar Noer veðurfræðingur sagði NRK upp úr hádegi í dag að það versta væri líkast til afstaðið og drægi úr ósköpunum. „Blása mun hraustlega við [vestur]ströndina yfir síðdegið og þess utan má reikna með breytilegum vindáttum. Ástandið í Troms verður skárra á morgun. Þeir sem ætla á skíði eru þó hvattir til að fylgjast með snjóflóðahættu á vefsíðunni varsom.no,“ sagði Noer.
Ökumenn um allan Noreg hafa átt á brattann að sækja þótt reynt hafi verið að ryðja vegi sem frekast og lögreglan hefur tilkynnt um fjölda tilfella þar sem ökumenn hafa ekið á elgi í dag, allt frá Harstad til Nordreisa. Ekki hafi þó orðið slys á fólki.
Í Vangsvik í Troms neyddist heilbrigðisstarfsfólk til að aka um á dráttarvélum til að sinna heimaþjónustu sjúkra og þurfandi. „Starfsfólk læknavaktarinnar hefur ekki komist í vinnuna fyrir utan þá sem búa í göngufæri,“ sagði Hogne Eidissen hreppsstjóri þar af ástandinu.
Þá er snjóflóðahætta víða í Norður-Noregi og í Rogaland-fylki ríkti öngþveiti á E39-brautinni í suðurhluta fylkisins. Á Andøya í Nordland-fylki stóð samkomuhúsið á Dverberg þeim opið sem lentu í vandræðum í fannferginu samkvæmt dagblaðinu Bladet Vesterålen. „Allir sem sitja fastir og bíða eru velkomnir inn í hlýjuna, hér er heitt á könnunni og folk getur brugðið sér á salernið,“ greindi blaðið frá.