Fara fram á 17 ára fangelsi

Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995 …
Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995 og gekk rannsókn málsins á afturfótunum frá upphafi. Frændi hennar var dæmdur fyrir ódæðið árið 1997 en sýknaður í áfrýjunarmáli 1998. Liðu svo rúmir tveir áratugir þar til annar maður var handtekinn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Nina Grande og Thale Thomseth héraðssaksóknarar telja það engum vafa undirorpið að Johny Vassbakk, sem handtekinn var í fyrra, grunaður um dráp Birgitte Tengs í Karmøy við vesturströnd Noregs vorið 1995, sé hinn seki í málinu og fara fram á 17 ára dóm.

„Við teljum það sannað og hafið yfir allan vafa að ákærði hafi misnotað Birgitte Tengs kynferðislega og myrt hana árið 1995,“ sagði Thomseth við upphaf saksóknarræðu sinnar í Héraðsdómi Haugalands og Sunnhörðalands í dag. Kvað hann myrtu hafa átt sér vonir og drauma og stóran vinahóp. „Hún var enn barn, en fullorðinsárin voru á næsta leiti,“ sagði saksóknari enn fremur.

Helsta sönnunargagnið er erfðaefni, Y-litningur, sem greindist í blóðbletti sem fannst á sokkabuxum myrtu. Telur ákæruvaldið að þegar Vassbakk dró buxur Tengs niður hafi hann haft blóð hennar á höndunum og erfðaefni af húð hans fest í blóðinu. Efnið greindist ekki fyrr en á síðustu árum eftir að tækni í erfðarannsóknum sakamála hafði fleygt fram frá því 1995.

Telja erfðaefnið ónóga sönnun

Hefur ákærði haldið sakleysi sínu staðfastlega fram allar götur frá handtökunni fyrir rúmu ári og hafna verjendur hans, Stian Bråstein og Stian Kristiansen, því að erfðaefnið teljist nægjanleg sönnun þess að skjólstæðingur þeirra hafi drýgt ódæðið. Efnið hefði getað borist á líkama Tengs eftir öðrum leiðum, til dæmis með annarri manneskju eða því að Tengs og ákærði hefðu verslað í sömu búð og fengið sömu skiptimynt í hendurnar.

Lögreglan lagði við rannsókn málsins mikla áherslu á fyrri brotaferil ákærða og benti á að hann væri svokallaður moduskandidat, það er að háttsemi hans í öðrum sakamálum hafi bent til sektar hans í máli Tengs. Helsta dæmið þar er árás hans á eigin sálfræðing, Jorunn Øpsen, árið 1990 þegar hann reyndi að kyrkja hana með snúru. Varð það Øpsen til lífs að snúran slitnaði en Vassbakk hlaut dóm fyrir athæfið árið 1991.

Foreldrar Tengs fara fram á 1,2 milljónir norskra króna, andvirði 17,3 milljóna íslenskra króna, í skaðabætur og er reiknað með að dómur í héraði falli í febrúar. Svo ljóst þykir að málinu verði áfrýjað að þegar hefur verið gert ráð fyrir því í dagskrá Lögmannsréttar Gulaþings í september á næsta ári.

Réttargæslulögmaður foreldranna, John Christian Elden, ræðir við Morgunblaðið á fimmtudaginn um málið auk annarra stórra norskra sakamála sem hann hefur komið að.

John Christian Elden, fremst á myndinni við rekstur máls Eiriks …
John Christian Elden, fremst á myndinni við rekstur máls Eiriks Jensens, fyrrverandi yfirlögregluþjón í Ósló, sem hlaut 21 árs dóm fyrir hlutdeild sína í smygli á 14 tonnum af hassi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

NRK
Aftenposten
Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert