Gætu banað hverjum einasta Bandaríkjamanni

Fentanýl er aðallega fjöldaframleitt í ólöglegum verksmiðjum í Mexíkó.
Fentanýl er aðallega fjöldaframleitt í ólöglegum verksmiðjum í Mexíkó. AFP

Fjöldi þeirra fentanýlskammta sem bandaríska fíkniefnalögreglan DEA hefur gert upptæka á árinu er nægur til þess að bana hverjum einasta Bandaríkjamanni, en þar búa 336 milljónir manna.

DEA segist hafa lagt hald á 379 milljónir banvænna skammta af fentanýli á árinu, eða 4,5 tonn auk 50 milljóna pilla. Tvö milligrömm af fentanýl geta verið banvæn. Þetta er tvöfalt meira magn en var lagt hald á í fyrra, að því er fram kemur í umfjöllun BBC

Fentanýli er lýst af stofnuninni sem banvænasta fíkniefni Bandaríkjanna, en efnið er gríðarlega ávanabindandi og 50 sinnum sterkara en heróín.

Kókaín og fleiri fíkniefni. Mynd er úr safni.
Kókaín og fleiri fíkniefni. Mynd er úr safni. AFP

Yfir 200 tonn af kókaíni

Fentanýl er aðallega fjöldaframleitt í ólöglegum verksmiðjum í Mexíkó, með efnum frá Kína, af tveimur stórum fíkniefnahringjum.

Yfir 100 þúsund Bandaríkjamenn létust af völdum ofskammts af fentanýli á þessu ári, en svo lítinn skammt þarf af því, til að verða fólki að aldurtila, að skammturinn kæmist fyrir á blýantsoddi.

DEA lagði einnig hald á 59 tonn af metamfetamíni, tvö tonn af heróíni og yfir 200 tonn af kókaíni á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert