Selenskí hittir Biden í Washington

Volodimír Selenskí.
Volodimír Selenskí. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hittir Joe Biden Bandaríkjaforseta og ávarpar Bandaríkjaþing í heimsókn sinni til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, í dag.

Hvíta húsið segir að heimsóknin muni senda Rússum sterk skilaboð um vestræna samstöðu. 

Leynd hvíldi yfir heimsókninni, sem verður sama dag og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ætlar að hitta æðstu menn rússneska hersins til að meta stöðuna vegna stríðsins í Úkraínu og setja markmið fyrir næsta ár.

Vladimír Pútín í veislu í Kreml í Moskvu í gær.
Vladimír Pútín í veislu í Kreml í Moskvu í gær. AFP/Valerí Sharifulin/Sputnik

Í Hvíta húsinu mun Biden kynna nýjan vopnapakka fyrir Úkraínumenn, að andvirði næstum tveggja milljarða bandaríkjadala, eða um 286 milljarða íslenskra króna. Loftvarnakerfi með svokölluðum Patriot-flugskeytum eru þar á meðal.

Fyrsta ferðalagið síðan innrásin hófst

Ferðalag Selenskís til Bandaríkjanna verður það fyrsta hjá honum utan Úkraínu síðan Rússar réðust inn í landið í febrúar.

Í dag eru 300 dagar liðnir frá innrás Rússa. Úkraínskir hermenn hafa ekkert gefið eftir í stríðinu, studdir með vopnum frá Vesturlöndum, og hafa Rússar þurft að hörfa frá svæðum sem þeir höfðu áður náð á sitt vald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert