Pútín játar að hernum er ábótavant

Ræða forsetans. Pútín viðurkenndi í gær að rússneski herinn ætti …
Ræða forsetans. Pútín viðurkenndi í gær að rússneski herinn ætti víða við ramman reip að draga hvað útbúnað, boðskipti og fleira snerti. AFP/Vadim Savitsky

Það kom mörgum í opna skjöldu þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti flutti ávarp í varnarmálaráðuneytinu í Moskvu í gær og játaði þar skyndilega það sem gengið hefur fjöllunum hærra innan Rússlands sem utan þess í tæpt ár: að her landsins stæði engan veginn undir því sem ætlast væri til af honum í Úkraínu.

Taldi Pútín upp það sem að hans mati stæði hernum helst fyrir þrifum. Hann þyrfti til dæmis að bæta boðvalds- og stjórnkerfi sitt og getuna til að svara stórskotahríð óvinarins. Þá þyrftu árásardrónar að geta deilt upplýsingum um skotmörk sín á milli í rauntíma auk þess sem ekki væri boðlegt að hermenn væru sendir vanbúnir á vígstöðvar.

Brýndi Pútín fyrir yfirmönnum hersins að huga að sjúkrakössum, mat, orkuríku þurrsnarli, einkennisbúningum, skófatnaði, hjálmum og skotheldum vestum.

Jafnast á við þá sem tókust á við Napóleon og Hitler

Var þó engan uppgjafartón að heyra í forsetanum, hann hygðist berjast áfram. „Við höfum aðgang að takmarkalausu fjármagni,“ sagði Pútín í ávarpinu, „landið og ríkisstjórnin láta allt í té sem herinn fer fram á – allt.“

Baðaði hann því næst rússneska hermenn á vígvöllum Úkraínu dýrðarljóma og líkti hermönnum sínum við „hetjurnar“ sem ráku heri Napóleons af höndum sér árið 1812 og sigruðu Hitler 1945. Sneri hann máli sínu þá að Vesturlöndum og sagði að einu gilti hve mikils stuðnings Úkraína nyti og við hvaða áskoranir her Rússlands glímdi, Kreml væri staðráðið í að hafa sigur á efsta degi. Hafa ýmsir rússneskir ráðamenn þó lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir í viðræður við Vesturlönd um leiðir til að binda endi á stríðið.

Einn þeirra er Sergei K. Shoigu varnarmálaráðherra sem tók til máls á eftir forsetanum. Sagði hann Rússland ávallt opið fyrir uppbyggilegum friðarviðræðum. Engu að síður kvaðst hann myndu taka gagnrýní Pútíns á herinn til athugunar, breyta uppbyggingu hans og auka æskilega stærð hersins um sem nemur 300.000 hermönnum.

Al Jazeera

Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert