Þumalputtareglan tvö manndráp á mánuði

John Christian Elden hefur starfað við lögmennsku í þrjá áratugi …
John Christian Elden hefur starfað við lögmennsku í þrjá áratugi og er þekktasti verjandi Noregs með mörg stærstu sakamál landsins á ferlinum. Um þessar mundir er hann réttargæslumaður foreldra Birgitte Tengs í 27 ára gömlu óleystu manndrápsmáli sem lítið samfélag á Karmøy við vesturströnd Noregs var slegið óhug yfir árið 1995. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég fékk nú bara ósköp venjulegt norskt uppeldi en pabbi og afi voru lögmenn og lögfræðin var algengt umræðuefni í fjölskyldunni svo leiðin lá þangað, það sem var kannski óvæntast var að sakamálaréttarfar yrði minn vettvangur,“ segir John Christian Elden, hæstaréttarlögmaður, einn eigenda lögmannsstofunnar Elden Advokatfirma og án nokkurs vafa þekktasti verjandi Noregs hin síðustu ár. Elden kemur um þessar mundir að réttarhöldum í máli Birgitte Tengs sem fannst hrottalega myrt á Karmøy í maí 1995 og mbl.is hefur fjallað um undanfarið.

Málið er enn óleyst, en nú er réttað yfir nýjum sakborningi sem kaldmálahópur norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos fékk augastað á í fyrra eftir að hafa tekið þráðinn upp að nýju. Elden kemur þó ekki fram sem verjandi að þessu sinni heldur réttargæslulögmaður fjölskyldu hinnar myrtu.

Við sitjum á stofu Eldens í miðbæ Óslóar í kjölfar þess er lögmaðurinn féllst á að ræða Tengs-málið við Morgunblaðið auk þess að fara yfir nokkur minnisstæð mál á ferlinum sem spannar þrjá áratugi. Elden sinnir ýmsum aukabúgreinum, hann er fyrirlesari við Lögregluháskóla Noregs, hjá Kripos og Lögfræðingafélagi Noregs og ritstýrir skrifum um refsirétt í alfræðiorðabókinni Store norske leksikon og á réttarfarsvefsíðunni Lovdata.

„Ég kallaði hann bara afa í staðinn“

Þá er hann fastur álitsgjafi í afbrotamálaþættinum Åsted Norge á TV2 auk þess sem Dagbladet útnefndi hann verjanda ársins 2001 og Finansavisen valdi vinnu hans við mál Ivars Petters Røeggens gegn DnB-bankanum lögmennsku ársins árið 2014, en bankinn var dæmdur bótaskyldur í Hæstarétti árið áður eftir að hafa ginnt viðskiptavin sinn til að taka lán fyrir sparnaðarleið á vegum bankans sem ekki borgaði sig. Í kjölfar dóms Hæstaréttar þurfti bankinn að endurgreiða fjölda viðskiptavina upphæð sem nemur um 6,3 milljörðum íslenskra króna.

Elden í sjónvarpsþættinum Åsted Norge á TV2 þar sem Jens …
Elden í sjónvarpsþættinum Åsted Norge á TV2 þar sem Jens Christian Nørve þáttastjórnandi fær til sín sérfróða gesti og ræðir óleyst norsk sakamál. Ljósmynd/Wikipedia.org/Carl-Fredrik Hammersland

Við komum aftur að téðum föður og afa. Elden er sonur nafna síns Johns Eldens lögmanns en afinn, Oscar Christian Gundersen, var í raun ekki afi Eldens heldur afabróðir. „Raunverulegur móðurafi minn dó snemma svo ég kallaði hann bara afa í staðinn,“ segir Elden frá en Gundersen var í tvígang dómsmálaráðherra Noregs, viðskiptaráðherra eitt tímabil, hæstaréttardómari og sendiherra Noregs í Moskvu árin 1958 til 1961.

„Eitt af fyrstu málunum mínum snerist um manndráp og þrjár nauðganir svo það má kannski segja að ég hafi hreinlega steypst inn í sakamálaréttarfarið snemma á ferlinum. Þetta var snemma á tíunda áratugnum og þá vann ég með mál manns sem grunaður var um þetta allt saman,“ segir Elden frá.

Að lokum játar hann

Sem fyrr segir er Elden nú um stundir réttargæslulögmaður fjölskyldu Birgitte Tengs. Rannsókn málsins fyrir aldarfjórðungi hefur verið gagnrýnd harðlega, ekki eingöngu fyrir að lögreglan sjálf hafi stórspillt vettvangi líkfundarins heldur einnig fyrir yfirheyrsluaðferðir stjórnanda rannsóknarinnar, Stians Elle, en þær rakkaði Asbjørn Rachlew, fremsti sérfræðingur Noregs í yfirheyrslutækni, niður við nýja aðalmeðferð málsins sem nú stendur yfir, en um framburð hans fjallaði mbl.is fyrir hálfum mánuði. Hvað fór svo skelfilega úrskeiðis í þessu voveiflega máli?

„Það sem er sérstakt við þetta mál er hvernig það hófst. Manndrápið er framið árið 1995 og svo leið rúmt ár þar til frændinn svokallaði var handtekinn. Hann er úrskurðaður í gæsluvarðhald án þess að hafa játað nokkuð og svo líður og bíður og að lokum játar hann og þá hverfur lögreglan frá öllum öðrum þáttum sem rannsóknin snerist um, hún var komin með játningu,“ segir Elden.

Elden segir foreldra Birgitte Tengs bíða átekta við rekstur málsins, …
Elden segir foreldra Birgitte Tengs bíða átekta við rekstur málsins, nú með nýjum sakborningi. Hjónin trúðu lögreglunni síðast þegar hún kvaðst þess fullviss að hún væri með réttan mann, nú vilja þau ekki ganga í gildru aftur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hætt hafi verið að skoða framburð vitna sem benti í aðrar áttir og svo, þegar frændinn dró játningu sína til baka nokkrum mánuðum síðar, hafi rannsóknin verið komin á byrjunarreit á ný. „Hann er svo sakfelldur í héraði en sýknaður í lögmannsrétti. En norska kerfið er þannig að hér eru refsimál og bótamál rekin saman og hann var ekki sýknaður af bótakröfunni, það gerðist ekki fyrr en núna nýlega,“ segir lögmaðurinn af frændanum sem kom fyrir héraðsdóm sem vitni í síðustu viku en í fyrrahaust féll grunur á annan mann, Johny Vassbakk, sem nú er réttað yfir.

Leiddur inn í ákveðinn raunveruleika

Foreldrar Birgitte Tengs eru að sögn Eldens fullir vantrúar nú, þegar lögreglan kemur til þeirra öðru sinni og segist vera með mann sem hún sé handviss um að sé sá rétti. „Þau bíða því átekta nú við rekstur málsins og ætla sér ekki að trúa því fyrir fram að þessi maður sé sá seki, þau vilja ekki ganga í sömu gildru aftur,“ segir Elden.

Hann lýsir velþóknun sinni á erindi Rachlews fyrir héraðsdómi. „Það var mjög jákvætt og hann hefur sýnt lögreglunni fram á að aðferðir hennar við yfirheyrslur frændans á sínum tíma voru rangar, nokkuð sem fyrirbyggir að slíkar aðferðir verði nýttar á ný. Þarna er maðurinn leiddur inn í ákveðinn raunveruleika og honum talin trú um að hann hafi framið glæpinn þar til hann að lokum játar hann á sig. Á slíkri játningu er ótækt að byggja og það sem Rachlew kennir [við norska Lögregluháskólann] er að lögreglunni sé ekki stætt á að ákveða að hún sé með hinn seka og fara svo í það að knýja fram játningu. Yfirheyrslan verður að snúast um efnisatriði sem hinn grunaði hefur upplifað og fá hann til að greina frá þeim,“ segir Elden.

Vinnubrögðin í Tengs-málinu á sínum tíma hafi gert það að verkum að rannsakendur hafi talið sig vera með skothelda sakfellingu fram undan og látið allar aðrar vísbendingar lönd og leið. „Hefði málið verið unnið með fleiri möguleika í huga hefði grunur hugsanlega fallið á einhvern annan áður en öll spor kólnuðu.“

Elden við aðalinngang Héraðsdóms Reykjavíkur í Íslandsheimsókn árið 2004.
Elden við aðalinngang Héraðsdóms Reykjavíkur í Íslandsheimsókn árið 2004. Ljósmynd/Aðsend

Telur Elden vinnubrögð norskrar lögreglu í manndrápsmálum og öðrum sakamálum, hvað varðar yfirheyrslutækni, betri nú en í málinu á Karmøy árið 1995?

„Já, að minnsta kosti þegar litið er til menntunar lögreglumanna. Rachlew kennir við Lögregluháskólann og hann notar þetta mál og annað mál til héðan frá Ósló sem grundvöll þess hvernig lögreglu beri að nálgast grunaðan einstakling við rannsókn og yfirheyrslu. Þegar yfirheyrandi ákveður sekt grunaða fer hann meðvitað eða ómeðvitað að haga yfirheyrslu sinni þannig að hann nái fram játningu og hann lokar augunum fyrir öðrum möguleikum sem er mjög óæskilegt,“ segir Elden.

21 ár fyrir 14 tonn af hassi

Hann hefur komið fram sem verjandi í nokkrum stærstu sakamálum Noregs, er til að mynda verjandi manns sem grunaður er um skotárás í miðbæ Óslóar á Pride-hátíðinni í sumar. Annað mál er mál Eiriks Jensens, fyrrverandi yfirlögregluþjóns í lögreglunni í Ósló, sem hlaut gríðarlega athygli og tók, að meðtalinni rannsókn, bróðurpart nýliðins áratugar. Fór málið tvo hringi í Lögmannsrétti Borgarþings eftir að sá fáheyrði atburður varð þar í janúar 2019 að dómendur höfnuðu sýknuúrskurði kviðdóms og flytja þurfti málið á nýjan leik. Jensen hlaut að lokum 21 árs dóm fyrir hlutdeild í innflutningi á 14 tonnum af hassi í samstarfi við Gjermund Cappelen sem hlaut 15 ár en saksóknari umbunaði honum fyrir að benda á Jensen sem samstarfsmann sinn. Þetta mál var ekkert smáræði eða hvað?

Í dómsal Héraðsdóms Óslóar við uppkvaðningu dóms í máli Eiriks …
Í dómsal Héraðsdóms Óslóar við uppkvaðningu dóms í máli Eiriks Jensens og Gjermund Cappelen í september 2017. Fjær ræðir fjölmiðlafólk við Cappelen sem hlaut 15 ár. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þarna varð mikill hanaslagur innan lögreglunnar sem náði alla leið inn til ákæruvaldsins. Jensen náði mjög miklum árangri í sínu starfi sem olli mikilli gremju í nágrannalögregluumdæmum Óslóar. Hann var álitinn „einmana úlfur“ [n. ensom ulv] sem deildi ekki upplýsingum um starf sitt með öðrum. Nokkuð sem útbjó hratt jarðveg fyrir grunsemdir um að hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu,“ segir Elden frá.

„Þetta varð til þess að þegar lögreglan í Asker og Bærum var komin með Cappelen handtekinn og í gæsluvarðhald kom hún honum í skilning um að segði hann frá einhverju misjöfnu um Jensen hlyti hann vægari refsingu. Og það gerði hann. Þetta er nákvæmlega sambærilegt frændanum í Tengs-málinu og hefði rétturinn haft sömu sjónarmið að leiðarljósi í máli Jensens og frændans hefði dómari einfaldlega sagt „þetta getum við ekki notað sem sönnunargögn“. Þarna er Cappelen leiddur í ákveðna átt og hann sér það strax að hann hefur til alls að vinna, þetta er atvinnuafbrotamaður sem hefur glæpastarfsemi sem lífsviðurværi,“ segir Elden.

„...og þar eru engin gögn“

Hann segir ekkert í ákærunni benda til þess að Jensen hafi í raun aðhafst nokkuð, ákæruvaldið hafi meðal annars byggt mál sitt á því að Jensen hefði gefið Cappelen upplýsingar um að verið væri að rannsaka hann ef til þess kæmi.

Feðgarnir Elden. Með föður sínum, John Elden lögmanni, á níunda …
Feðgarnir Elden. Með föður sínum, John Elden lögmanni, á níunda áratugnum í Rondane-þjóðgarðinum milli Guðbrandsdalsins og Atndalsins. Ljósmynd/Aðsend

„Hann er dæmdur á þeim grundvelli að hann hefði gert eitthvað hefðu vissar aðstæður komið upp og Cappelen verið í hættu en hann aðhafðist í raun ekki neitt. Hann berst nú fyrir að fá málið tekið upp á nýjan leik en þar er við ramman reip að draga þar sem hann þarf þá að leggja fram sönnunargögn gegn gögnum ákæruvaldsins og þar eru engin gögn,“ segir verjandinn um skjólstæðing sinn í einu umtalaðasta sakamáli Noregs síðustu ár.

Við höldum áfram með norsk stórmál sem Elden hefur komið að, tíminn er af skornum skammti í þessu viðtali sem tekið var 10. desember, blaðamaður þarf að vera mættur á friðarverðlaunaafhendingu í Ráðhúsinu í Ósló í síðasta lagi stundarfjórðung yfir tólf, þá er hætt að hleypa þangað inn. Hálftími er hámarkið á stofu lögmannsins og svo 800 metra spretthlaup.

„Þetta er náttúrulega eitt alvarlegasta sakamál landsins, rán og lögreglumaður …
„Þetta er náttúrulega eitt alvarlegasta sakamál landsins, rán og lögreglumaður lætur lífið,“ segir Elden um NOKAS-ránið árið 2004 sem kostaði umfangsmestu lögreglurannsókn sem þá hafði farið fram í Noregi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Stærsta bankarán á Norðurlöndum var framið í Stavanger að morgni mánudagsins 5. apríl 2004. Þetta var NOKAS-ránið svokallaða sem lauk með því, eftir eina umfangsmestu sakamálarannsókn í sögu landsins, að 13 manns hlutu samtals 171 árs dóm fyrir ránið sem kostaði lögregluvarðstjórann Arne Sigve Klungland lífið, hann var skotinn til bana þar sem hann kom akandi á lögreglubifreið sinni eftir Kongsgata og einn ræningjanna, Kjell Alrich Schumann, „Skugginn“ svokallaði, tæplega fertugur þrautreyndur afbrotamaður, fylltist örvæntingu yfir að lögreglan væri um það bil að hafa hendur í hári bankaræningjanna og gera að engu skipulagningu sem tekið hafði vel yfir eitt ár.

Elden var verjandi Erlings Havnå, sleggjumannsins svokallaða, sem hafði það hlutverk að brjóta ræningjunum leið gegnum marghert öryggisglerið í starfsstöðvum NOKAS sem sér um að fylla hraðbanka Noregs af peningum. Hvað segir Elden af NOKAS-málinu?

„Þetta er náttúrulega eitt alvarlegasta sakamál landsins, rán og lögreglumaður lætur lífið,“ svarar Elden en þess má geta að ránsfengurinn var 57 milljónir norskra króna, á níunda hundrað milljónir íslenskra króna að núvirði en um 600 milljónir árið 2004. Peningarnir hafa aldrei fundist.

Allar ákærur leiddu til dóms

„Þarna var á ferðinni hópur ræningja sem hafði starfað í Austur-Noregi um tíma og þetta var litið gríðarlega alvarlegum augum, lögreglan fékk alla þá fjármuni sem þurfti í rannsóknina og þarna átti sér stað samvinna milli lögreglunnar í Stavanger, lögreglunnar í Ósló, Kripos og fleiri lögregluumdæma. Þarna var ýmsum óhefðbundnum rannsóknaraðferðum beitt og allt lagt í sölurnar til að finna þá seku. Þessu lauk með því að allar ákærur leiddu til dóms,“ segir Elden.

„Just another brick in the wall,“ sungu þeir Pink Floyd-menn. …
„Just another brick in the wall,“ sungu þeir Pink Floyd-menn. Elden heldur á hnullungi úr Berlínarmúrnum 9. nóvember 1989. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir nánast alla ákærðu, sem flestir eru frjálsir menn í dag, hafa þverneitað sakargiftum fyrir héraðsdómi en fleiri hafi játað í áfrýjunarmálum fyrir lögmannsrétti. Á þeim tíma hafi rannsókn NOKAS-ránsins verið dýrasta lögreglurannsókn í sögu landsins.

Í ákaflega sérstöku bótamáli Fritz Yngvars Moens flutti Elden málið fyrir hönd dánarbús Moens sem þá var látinn. Málinu lauk með 20 milljóna króna, jafnvirði 289 íslenskra króna, bótagreiðslu. Moen hlaut dóma fyrir tvö manndráp á áttunda áratugnum, dómarnir féllu árin 1978 og 1981, en hann var fatlaður eftir bifhjólaslys árið 1966 auk þess sem hann var fæddur nánast heyrnarlaus. Hann sat bak við lás og slá hálft nítjánda ár fyrir að hafa nauðgað tveimur konum og myrt þær.

Yfirheyrður á táknmáli

Eftir að einkaspæjarinn Tore Sandberg hafði legið yfir málunum á tíunda áratugnum var Moen sýknaður af öðru manndrápinu árið 2004 og af hinu árið 2006 í kjölfar þess er 67 ára gamall maður gekkst við báðum drápunum á dánarbeði sínum. Moen var látinn þegar sú játning kom fram, hann dó árið 2005.

Elden ásamt Sol eiginkonu sinni í afmælisveislu hennar í hitteðfyrra …
Elden ásamt Sol eiginkonu sinni í afmælisveislu hennar í hitteðfyrra og þáverandi forsætisráðherrahjónunum Ernu Solberg og Sindre Finnes. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kom fyrst að þessu máli snemma á tíunda áratugnum og þá snerist það um að fá hann látinn lausan úr fangelsi,“ segir Elden frá. „Grundvöllur dómanna voru játningar hans í báðum málunum en þar var pottur brotinn. Hann var heyrnarlaus og yfirheyrslurnar fóru fram á táknmáli með rannsóknarlögreglumanni sem kunni eitthvað í táknmáli vegna þess að foreldrar hans voru heyrnarlausir. Hann fékk fram játningu á táknmáli en engir sem voru heyrnarlausir og kunnu táknmál almennilega voru viðstaddir,“ segir Elden frá.

Í krafti nýrra DNA-rannsókna eftir að tekið var að skoða málið á ný hafi orðið ljóst að útilokað var að Moen tengdist málinu. „Lögreglan reyndi allt til að snúa sig út úr því máli þegar það var endurupptekið, bar því meðal annars við að einhver annar [sem erfðaefnið tilheyrði] hefði nauðgað konunum en Moen svo myrt þær og þá var þetta nú farið að verða dálítið undarlegt, enn eitt málið sem ætti að vera lögreglu til áminningar um rannsóknaraðferðir,“ rifjar hann upp af Moen-málinu svokalla sem hlaut mikla athygli og gengur í raun í endurnýjun lífdaganna nú með máli Viggos Kristiansens sem sýknaður hefur verið í Baneheia-málinu eftir að hafa setið í fangelsi í tuttugu og hálft ár. Bótakrafa hans er væntanleg og hún verður há.

Tíminn gengur okkur hægt og bítandi úr greipum. Telur Elden mun á norskum manndrápsmálum, sem hafa átt það til að vera með þeim óhugnanlegri, fólk á afskekktum stöðum myrði fjölskyldu sína að hluta eða í heild og svo framvegis, og hins vegar á drápsmálum í öðrum skandinavískum ríkjum?

Við hinn ægifagra Geirangursfjörð, eina af mörgum náttúruperlum Noregs, árið …
Við hinn ægifagra Geirangursfjörð, eina af mörgum náttúruperlum Noregs, árið 2010. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fylgist nú eiginlega bara með Svíþjóð af hinum löndunum og þar er mikið um manndráp með skotvopnum,“ svarar Elden og hefur lög að mæla, árin 2018 til 2021 týndu að meðaltali 44,25 íbúar Svíþjóðar lífinu í 325 skotárásum ár hvert. „Þetta er allt annað en hér í Noregi og í Svíþjóð gengur lögreglan með skotvopn en ekki hérna. Þumalputtareglan í Noregi er tvö manndráp á mánuði, og þá er ég að tala um heildartölu, ekki bara skotvopn, þannig hefur þetta verið síðan ég hóf störf við lögmennsku. En þjóðinni hefur auðvitað fjölgað á sama tíma svo hlutfallslega eru manndrápin færri,“ bendir hann á.

600 óleyst mál í Svíþjóð

Manndráp í Noregi séu í mun minni mæli tengd átökum glæpagengja eða skipulagðri glæpastarfsemi, hér sé mun meira um makadráp eða að foreldrar og börn þeirra myrði hvert annað. „Þetta gerist mjög oft innan fjölskyldna hér, þú sérð það bara ef þú skoðar dóma í norskum manndrápsmálum,“ segir Elden.

Fjallganga í norsku sumri og sól einhvern tímann á níunda …
Fjallganga í norsku sumri og sól einhvern tímann á níunda áratugnum. Ljósmynd/Aðsend

Undir lokin berst talið að óleystum manndrápsmálum í Noregi sem eru 32 um þessar mundir samkvæmt tölfræði Kripos. Í Svíþjóð eru þau um 600. Íbúar landanna eru 5,5 milljónir í Noregi og Svíar eru 10,3 milljónir. Munurinn er engu að síður úr öllu samræmi við íbúafjöldann.

„Lögreglan í Noregi hefur nokkuð góða yfirsýn. Hér þekkir fólk nágrannann betur og býr yfir meiri upplýsingum. Eins talar það við lögregluna. Svíar glíma nú við það vandamál að stór hluti íbúa landsins vill engin samskipti hafa við lögregluna, þeir eiga sér bara þannig menningarbakgrunn. Norðmenn taka eftir því ef fólk hverfur og láta vita. Þú horfir á amerískar kvikmyndir þar sem lögreglan segist ekkert gera í málum fólks sem hefur verið saknað innan við sólarhring. Samt segjum við að fyrstu 48 tímarnir séu mikilvægastir í mannshvarfsmálum, þetta rímar illa,“ segir Elden.

Norskur heiðursborgari í Nebraska

Lokaspurning sem snýr að allt öðru. Elden er heiðursborgari Nebraska-ríkis í Bandaríkjunum. Hvernig má þetta vera?

Hér getur lögmaðurinn ekki varist hlátri. „Ég var þar á námskeiði á vegum bandaríska og norska dómsmálaráðuneytisins og við áttum góð samtöl við ríkisstjórann og vararíkisstjórann. Stór hluti þeirra snerist um öryggismál, þetta var skömmu eftir árásirnar 11. september 2001. Þeir féllust á sjónarmið mín um að meira vit væri í því að nota fjármuni til að tryggja öryggi borgaranna í daglegu lífi þeirra en að víggirða utan um stjórnendur og sjálfan ríkisstjórann. Svo fór að þeir notuðu milljónirnar í að styrkja stíflur í ám í stað þess að víggirða húsnæði ríkisþingsins,“ segir hann frá.

Elden er heiðursborgari Nebraska í Bandaríkjunum eftir ferð þangað á …
Elden er heiðursborgari Nebraska í Bandaríkjunum eftir ferð þangað á vegum dómsmálaráðuneytisins skömmu eftir hryðjuverkin 11. september 2001 þar sem hann kynnti ríkisstjóra og vararíkisstjóra sjónarmið sín í öryggismálum og féll greinilega í góðan jarðveg. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Af öllu saman hafi spunnist skemmtilegar umræður og kynni „og vararíkisstjórinn útnefndi mig heiðursborgara í Nebraska áður en ég sneri heim“, segir John Christian Elden að lokum, lögmaður sem langoftast er í hlutverki verjanda, ekki alltaf þó, svo sem nú í máli Birgitte Tengs.

Kófsveittur blaðamaður var við inngang ráðhússins fjórum mínútum áður en skellt var í lás fyrir friðarverðlaunaafhendingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert